Morgunblaðið og mbl.is standa fyrir kappræðum sem streymt verður á mbl.is klukkan 16 í dag. Þar að auki verður kynnt ný skoðanakönnun frá Prósent.
Fyrir svörum verða þeir fimm forsetaframbjóðendur sem hlotið hafa 10% fylgi í skoðanakönnunum eða meira: Þau Baldur Þórhallsson prófessor, Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri, Halla Tómasdóttir forstjóri, Jón Gnarr leikari og Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra.
Engir frambjóðendur aðrir hafa náð 10% fylgi í þeim viðurkenndu skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í aðdraganda forsetakjörs.
Í þættinum verða kynntar glóðvolgar niðurstöður síðustu skoðanakönnunar sem Prósent gerir fyrir Morgunblaðið og mbl.is í þessari æsispennandi kosningabaráttu.
Þar hefur gengið á ýmsu og fátt sem bendir til annars en að frekari sviptingar geti orðið í lokavikunni, en í síðustu könnun voru þrír efstu frambjóðendur hnífjafnir.
Blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson beina spurningum til frambjóðendanna og leitast við að hafa umræður markvissar og hvassar.
Hægt er að fylgjast með undirbúningi kappræðnanna á samfélagsmiðlum mbl.is og Morgunblaðsins.
Um nóg er að ræða; bæði um forsetaembættið og yfirlýst áform frambjóðenda á forsetastóli. Þeir hafa sumir lýst vilja til að halda áfram að þróa embættið og auka vægi þess í stjórnsýslu og þjóðmálaumræðu, en aðrir vilja leitast við að halda tryggð við þær hefðir sem um það hafa skapast og viðhalda stjórnfestu í því.
Þá verður einnig spurt út í ýmis álitamál sem vaknað hafa í kosningabaráttunni, jafnt um embættið, völd þess og ábyrgð, sem og frumkvæði forseta í landstjórninni, mótvægi og mörk.
Loks má þar vænta umræðu um framgöngu frambjóðenda, sem varpað getur ljósi á hvers vænta má af þeim í forsetaembætti þegar á reynir.