Stag slitnaði í fjarskiptastöð Bandaríkjaflota

Hraunbreiðan náði að varnargörðum sem komið hafði verið upp við …
Hraunbreiðan náði að varnargörðum sem komið hafði verið upp við fjarskiptastöð Bandaríkjaflota. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stag slitnaði í mastri fjarskiptastöðvar Bandaríkjaflota í gær þegar hraun rann að varnargörðum sem settir höfðu verið upp umhverfis stöðina.

Víðir Reyn­is­son, sviðsstjóri al­manna­varna, segir mastrið þó alveg eiga að þola slíkt. 

„Jafnvel þó það færi annað stag,“ bætir hann við. 

Til útskýringar höfðu verið gerðar varnir í kringum stögin, auk þess sem settur hafði verið upp varnargarður við stöðina. Víðir segir hraun hafa runnið á þessar varnir í gær en ekki farið yfir þær. 

Fjarskiptastöð bandaríska flotans sem er staðsett vestan Grindavíkur.
Fjarskiptastöð bandaríska flotans sem er staðsett vestan Grindavíkur. Ljósmynd/Olga Ernst

Hraun rann skammt frá skarðinu

Fjarskiptastöð Bandaríkjaflota liggur vestan Grindavíkur og einkennist af háu mastri.

mbl.is greindi frá því í gær að hraunbreiðan hefði náð að varnargörðunum við fjarskiptastöðina, en vegur klýfur varnargarðana við mastrið og rann hraunið skammt frá skarðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert