Íbúar sem dvöldu áfram í Grindavík í gær, þvert á tilmæli lögreglu, yfirgáfu bæinn að eigin frumkvæði í kjölfar þess að viðbragðsaðilum var gert að rýma Grindavík.
Þetta segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, í samtali við mbl.is. Það var því enginn sem dvaldi í Grindavíkurbæ í nótt.
Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá því í færslu á Facebook eftir hádegi í gær að enn dveldu þrír í bænum eftir að íbúar áttu að rýma svæðið.
Spurður hvort lögregla hefði þurft að beita valdi til að koma fólkinu burt svarar Víðir neitandi.
„Alls ekki. Það stóð aldrei til að gera það,“ segir hann og útskýrir að um leið og viðbragðsaðilum var gert að rýma bæinn hefðu þeir rætt betur við fólkið, enda óljóst á þeim tímapunkti hvort kvikugangurinn myndi opnast alla leið til Grindavíkur.