Verða að greina dómsmál vegna hættu í dómstólum

Kristín Haraldsdóttir framkvæmdastjóri Dómstólasýslunnar segir að sum atvik hringi viðvörunarbjöllum …
Kristín Haraldsdóttir framkvæmdastjóri Dómstólasýslunnar segir að sum atvik hringi viðvörunarbjöllum hvað öryggi í dómhúsum varðar. mbl.is/Hari

„Við teljum að það sé alveg full ástæða til að horfa á öryggismál með alvarlegri augum í dag í ljósi stærðar ýmissa mála sem koma fyrir dómstóla,“ segir Kristín Haraldsdóttir framkvæmdastjóri Dómstólasýslunnar í samtali við mbl.is. 

Hún segir málin vera orðin viðameiri og alvarlegri sem koma til kasta dómstólanna en áður. 

Ríkislögreglustjóri gerir athugasemdir

„Það þarf til dæmis að greina mál áður en þau eru flutt fyrir dómi. Hvort það sé einhver hætta fyrir hendi sem kalli á það að lögregla þurfi að vera til staðar,“ segir Kristín.  

Nýverið gerði ríkislögreglustjóri úttekt á öryggismálum dómhúsa og var þetta meðal athugasemda sem komu fram. Víða sé pottur brotinn hvað þetta varðar, segir í ársskýrslu Dómstólasýslunnar fyrir síðasta ár.  

„Við viljum halda í þetta samfélag okkar þar sem er traust og að við lítum svo á að það sé ekki mikil hætta. Þannig hafa dómstólar í nágrannalöndum okkar líka hugsað en oft verða einhver atvik sem leiða til þess að þetta breytist,“ segir Kristín.

Mjög alvarleg atvik ekki enn átt sér stað

Sem betur fer höfum við ekki lent í mjög alvarlegum atvikum að sögn Kristínar.  

„Það hafa þó komið upp atvik sem hringja viðvörunarbjöllum,“ bætir hún við en kveðst ekki geta tjáð sig um atvikin.  

Hún bendir á að í ýmsum dómhúsum erlendis sé gengið enn lengra og leitað á fólki. „Við erum að þróast og breytast eins og önnur samfélög.“ 

„Síðan erum við með sum dómhús sem eru þannig hönnuð að flæðið í gegnum þau er ekki gott út frá öryggissjónarmiðum,“ segir Kristín og nefnir hún sem dæmi dómshús Landsréttar sem er að Vesturvör 2 á Kársnesi. Húsnæðið á að vera til bráðabirgða en dómurinn hefur haft aðsetur þar frá árinu 2018.  

„Þar blandast saman allir sem eru að koma í dómhúsið vegna sinna mála. Það er að segja aðilar máls, starfsfólk dómstólanna og lögmenn.“

Kristín segir að flæði dómshúsa verði að vera stýrðara en að staðan sé sambærileg hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra.  

Flæðið innan Héraðsdóms Norðurlands eystra er ekki heppilegt fyrir dómhús.
Flæðið innan Héraðsdóms Norðurlands eystra er ekki heppilegt fyrir dómhús. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það má ekki verið þannig að sem dómari getirðu rekist á sakborning á ganginum. Þannig að það er ekki tryggt rétt flæði innan þessa dómhúss,“ segir Kristín. Talsverðar breytingar verði að ráðast í, í Landsrétti, til að tryggja meira öryggi fyrir dómara og aðra aðila sem koma til dómshússins. 

„Það er erfitt að gæta fyllsta öryggis og við viljum geta gert það.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert