Viðbragðsaðilar og jarðvísindamenn funda

Frá vefmyndavél mbl.is í morgun.
Frá vefmyndavél mbl.is í morgun. Skjáskot/mbl.is

Gosórói var stöðugur í nótt og skjálftavirkni við Sundhnúkagígaröðina hefur verið lítil sem engin frá klukkan 14 í gær. Jarðvísindamenn og viðbragðsaðilar funda nú á áttunda tímanum um stöðuna.

Þetta segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Virknin í eldgosinu hefur dregist mikið saman frá því í gær og einangrast nú við nokkur gosop á sprungunni. 

Lítið skyggni hefur verið við gosstöðvarnar í nótt og morgun og hefur því verið erfitt að fullyrða um hversu mörg gosop eru virk en í gærkvöldi voru þau um sex talsins.

Búast við frekari upplýsingum síðar í dag

Að sögn Sigríðar liggja enn ekki fyrir nákvæmar tölur um framleiðni eldgossins en búast má við frekari upplýsingum síðar í dag.

Í flugi vísindamanna yfir gosstöðvarnar í gær áætluðu þeir að framleiðnin hefði náð um 1.500 rúmmetrum á sekúndu þegar gosið stóð sem hæst. Um ónákvæmt mat er þó að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert