Víðir: „Fólk gleymir sér í augnablikinu“

Víðir segir talsverða hættu geta skapast á Reykjanesbraut þegar fólk …
Víðir segir talsverða hættu geta skapast á Reykjanesbraut þegar fólk stöðvi ökutæki sín til að berja eldgosið augum. mbl.is/Eyþór

Nokkuð var um að vegfarendur hindruðu ferðir viðbragðsaðila við lokanir í gær að sögn Víðis Reynissonar, sviðsstjóra almannavarna. 

Víða hafa verið settir upp lokunarpóstar til að koma í veg fyrir að fólk fari sér að voða nærri nýju eldgosi á Reykjanesskaga. Víðir segir viðbragðsaðila nokkrum sinnum hafa þurft að hafa afskipti af fólki við umrædda lokunarpósta í gær, en að öðru leyti hafi ekki verið teljanleg vandræði á fólki á staðnum. 

„Það var svona það sem þurfti að bregðast við nokkrum sinnum í gær, biðja fólk að færa sig,“ segir Víðir. 

Áhyggjur af fólki sem stöðvar á Reykjanesbraut

„Svo höfum við alltaf áhyggjur af því þegar við sjáum fólk vera að stoppa á Reykjanesbrautinni og fara út úr bílunum til að taka myndir,“ bætir hann við en almannavarnir hafa lagt mikla áherslu á að fólk stöðvi ekki á Reykjanesbrautinni til að berja eldgos augum. 

„Þegar umferðin og hraðinn er eins og hann er, þá getur skapast talsverð hætta. Fólk gleymir sér í augnablikinu með myndavélina fyrir framan sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert