Áfram launastuðningur til ágústloka

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin afgreiddi á fundi sínum í morgun frumvarp frá fjármála- og efnahagsráðherra um áframhaldandi gildistíma launastuðnings fyrir Grindvíkinga til ágústloka. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir ákvörðunina í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 17. maí um aðgerðir til að styðja við bakið á Grindvíkingum.

Fleiri frumvörp voru afgreidd til stuðnings Grindavíkur á ríkisstjórnarfundinum í morgun, þar á meðal um áframhaldandi húsnæðisstuðning og rekstrarstuðning til fyrirtækja. Einnig var afgreitt frumvarp frá matvælaráðherra um afurðatryggingu til fyrirtækja.

Guðmundur Ingi að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Guðmundur Ingi að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Málin verða væntanlega tekin fyrir á Alþingi í næstu viku, segir Guðmundur Ingi, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundinum.

Málefni Þórkötlu „í góðu ferli“

„Það er ennþá þörf á því að styðja við bakið á Grindvíkingum og þá erum við að tala um bæði einstaklinga og fyrirtæki,” segir hann aðspurður og nefnir að fasteignafélagið Þórkatla sé búið að ganga frá samningum við um 600 manns og einhver fjöldi til viðbótar bíði enn.

Tafir urðu á afhendingu eigna til Þórkötlu vegna eldgossins en Guðmundur Ingi bendir á að almennt hafi allt gengið mjög vel „eftir að málin fóru að ganga og það var búið að koma öllum ferlum í lag”.

Hann heldur áfram:  „Ég held að þau séu komin á stað þar sem umsóknirnar eru í góðu ferli.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert