Hermann Nökkvi Gunnarsson
Baldur Þórhallsson hefur talað mikið um það hvernig hann hyggst beita embætti forseta Íslands, eins og til dæmis með því að vakta störf Alþingis. Í forsetakappræðum Morgunblaðsins og mbl.is í gær sagði hann þetta ekki vera nýja nálgun.
Þetta er alveg ný nálgun á embættið?
„Nei, nei það er nú ekki alveg rétt túlkun, því ég hef alveg talað skýrt um það að forseti Íslands á fylgja eftir utanríkisstefnu sem Alþingi og ríkisstjórn markar á hverjum tíma. Ég alla tíð talað skýrt um það en innan utanríkisstefnunnar sem er markað er ákveðið svigrúm sem hann hefur til dæmis til að tala fyrir friði,“ sagði Baldur meðal annars.
Hann sagði það vera skýrt í stjórnarskránni að forseti eigi að gegna aðhaldshlutverki þegar komi að störfum Alþingis þó að hann eigi að sjálfsögðu að virða dagleg störf þingsins.
„Eigi að síður finnst mér mjög mikilvægt að þjóðin viti að á Bessastöðum sitji bóndi eða forseti sem þjóðin veit að ef hún kallar eftir því, þá er forsetinn tilbúinn að virkja neyðarhemilinn ef til þess kemur,“ sagði Baldur.
Hann nefndi að ef Alþingi færi gegn „samfélagssáttmála“ landsmanna um ýmis mannréttindi, eða ef Alþingi ætlaði selja Landsvirkjun, þá væru það dæmi um mál þar sem hann myndi skjóta málum til þjóðarinnar.
„Það myndi ég tryggja í embætti forseta Íslands.
Horfðu á kappræðurnar í heild sinni í spilaranum hér að neðan: