Bjarni ræddi við Selenskí: Úkraína þarf „tæki og tól“

Selenskí og Bjarni skrifuðu undir samstarfsamning Íslands og Úkraínu á …
Selenskí og Bjarni skrifuðu undir samstarfsamning Íslands og Úkraínu á fundi í Stokk­hólmi í dag. Ljósmynd/Sænska stjórnarráðið

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur mikilvægt Úkraínumenn hafi öll þau „tæki og tól“ sem þeir þurfa til að verjast innrás Rússa. Hann hitti Selenskí í dag og mun mæta á friðarráðstefnu í Sviss um miðjan júni.

Þetta sagði hann eftir fund sinn með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta og öðrum leiðtogum norðurlanda í Stokk­hólmi í dag.

Umræðuefnið var stuðningur Norðurlanda við Úkraínu og staðan á friðaráætl­un Úkraínu, sem verður rædd á friðarviðræðum í Sviss í júní.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra Íslands, Metta Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur, Volodimír Selenskí …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra Íslands, Metta Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur, Volodimír Selenskí Úkraínuforseti, Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar, Alexander Stubb forseti Finnlands og Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs. Ljósmynd/Sænska stjórnarráðið

Öll ríkin að ljúka tvíhliða samningi

„Helstu tíðindin eru þau að norrænu ríkin eru öll að ljúka tvíhliða samningum við Úkraínu við stuðning vegna innrásar stríðsins, hvert með sínum hætti,“ sagði Bjarni við blaðamann mbl.is þegar hann gekk út af fundinum. Mik­ill viðbúnaður er í Stokk­hólmi vegna fundarins.

Þings­álykt­un­ar­til­laga að stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024 til 2028 var samþykkt á Alþingi í lok apríl.

„Það er mjög ánægjulegt að við getum gert þetta í beinu framhaldi af þverpólitískum stuðningi á Íslandi þar sem ályktun okkar um langtímastuðning var afgreidd fyrir nokkrum vikum. Og byggt á þeim stuðningi sem þingið hefur samþykkt fór af stað samtal við Úkraínu sem við erum að skrifa undir hér í dag.“

Bjarni og Selenskí hittust í dag til að ræða stuðning …
Bjarni og Selenskí hittust í dag til að ræða stuðning Íslands og annarra norðurlanda við Úkraínu. Ljósmynd/Sænska stjórnarráðið

Mæta báðir á friðarviðræður í júní

Ulf Kristersson, forsæt­isráðherra Svíþjóðar, er gest­gjafi fundarins en aðrir þátttakendur eru Alexander Stubb, forseti Finnlands, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.

„Þetta var líka tækifæri fyrir forsætisráðherra Norðurlandanna, forseta Finnlands til þess að eiga sameiginlegan fund með forseta Úkraínu og það var tækifæri til að deila upplýsingum um stöðu mála, ræða um friðarumleitanir Úkraínu sem við höfum stutt,“ segir Bjarni.

Ulf Kristersson, forsæt­isráðherra Svíþjóðar, er gest­gjafi fundarins með Selenskí.
Ulf Kristersson, forsæt­isráðherra Svíþjóðar, er gest­gjafi fundarins með Selenskí. Ljósmynd/Sænska stjórnarráðið

Rætt var um leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem haldinn verður í sumar og einnig friðarráðstefnuna sem verður haldin í Sviss í júní.

„[Fundurinn í Sviss] verður tímamótafundur og stefnir í að um 100 ríki eða rúmlega það munu koma,“ segir Bjarni. Þá hafi Ísland líka stutt við að fulltrúar frá Malaví og Síerra Leóne mæti á fundinn.

Selenskí hefur aftur á móti úti­lok­að þátt­töku Rússa á friðarráðstefnunni sem fram fer í Sviss dag­ana 15. og 16. júní.

Fer fögrum orðum um Selenskí

Þetta er fyrsta sinn sem Bjarni fundar með Selenskí augliti til auglitis og ráðherrann fer fögrum orðum um Úkraínuforseta.

„Þannig að þetta var kærkomið tækifæri og minn fyrsti fundur beint með Selenskí. Það var gott að geta komið hingað til þess að staðfesta eindregin stuðning Alþingis við Úkraínu á þessum viðkvæmu og erfiðu tímum,“ segir Bjarni.

„Það er ótrúlegt að fylgjast með því æðruleysi og staðfestu sem hann hefur. Alveg eins og hann sé nýr og ferskur inn á þennan vettvang, ekki nokkurt þreytumerki að sjá, þvert á móti horf til framtíðar,“ bætir hann við.

Bjarni og Selenskí funduðu í dag.
Bjarni og Selenskí funduðu í dag. Ljósmynd/Sænska stjórnarráðið

„Þurfa að hafa tæki og tól til að verjast innrásinni“

Aðspurður hvort að stuðningurinn sem var ræddur á fundinum sé af hernaðarlegu eðli svarar Bjarni:

„Við höldum því alltaf til haga að við erum ekki í sömu færum og önnur Norðurlönd til að veita beinan slíkan [hernaðarlegan] stuðning, enda eina norðurlandaþjóðin sem er ekki með her.“

„En við reynum að hlusta á það sem mestu máli skiptir fyrir Úkraínumenn og studdum síðan nýlega frumkvæði Tékka við að útvega það sem mestu máli skiptir Úkraínsku þjóðina og her þeirra. Aðalumræðuefnið á fundi eins og þessum [er að] þau þurfa að hafa tæki og tól til að verjast innrásinni,“ bætir Bjarni við að síðustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert