Blámóða í blíðskaparveðri

Blámóðan sást vel frá Mjóafirði.
Blámóðan sást vel frá Mjóafirði. Ljósmynd/Jón Grétar Margeirsson

Tilkynningar um blámóðu frá eldgosinu hafa borist Veðurstofu Íslands frá Norður- og Austurlandi en jafnframt Flúðum. Um er að ræða gasmengun sem þó mælist ekki yfir heilsufarsviðmiðum. 

Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir móðuna myndast þegar gosmökkurinn frá eldgosinu er á leið upp í lofthjúpinn þar sem hann hvarfast við súrefni og vatnsgufur úr mekkinum. 

Þá myndast litlar agnir sem verði bláleitar þegar sólin skín á þær og „þá kemur þessi móða yfir“, útskýrir Jóhanna. 

Blámóða lá yfir Mjóðafirði á Austurlandi.
Blámóða lá yfir Mjóðafirði á Austurlandi. Ljósmynd/Jón Grétar Margeirsson

Mælar staðsettir dreif á Norður- og Austurlandi

„Þetta gerist helst þegar sól er og hlýtt eins og var í fyrradag þegar mestu lætin voru í gosinu. Þess vegna hefur orðið býsna mikið til af þessu og það náð að berast svo yfir landið í fyrrinótt.“

Þannig að þessar agnir myndast allar við eldgosið en berast síðan austur? 

„Já, þetta myndast líklega allt að langmestu leyti í fyrradag við gossvæðið, eða þegar gosmökkurinn fer aðeins hærra upp í lofthjúpinn. Þar er hann að hvarfast við súrefni og vatnsgufur úr mekkinum og verður til mjög nálægt gosstöðvunum sjálfum,“ segir Jóhanna og útskýrir að móðan hafi síðan borist yfir landið með vindáttinni í fyrrinótt. 

Þú segir að þetta mælist á Norður-, Austurlandi og Flúðum. Er þetta bara að mælast á tilviljunarkenndum stöðum eða eruð þið með mæla sem nema móðuna?

„Við erum með mæla frekar dreift á Norður- og Austurlandi og höfum verið að mæla þetta örlítið með þeim mælum. Svo á stöðum eins og á Flúðum, þar erum við ekki með mæla heldur höfum við fengið tilkynningu og mynd senda þar sem gosmóða er sýnileg.“ 

Vegfarendur tóku eftir blámóðu í Mjóafirði.
Vegfarendur tóku eftir blámóðu í Mjóafirði. Ljósmynd/Jón Grétar Margeirsson

Mengun undir heilsufarsviðmiðum

Jóhanna segir móðuna, eða mengunina, ekki hafa verið yfir heilsufarsviðmiðum og því ætti fólk ekki að hafa fundið fyrri neinum óþægindum þrátt fyrir að móðan hafi verið sýnileg. Hún hvetur fólk þó til að skoða gasdreifingarspár á vef Veðurstofunnar til að fylgjast með þeim breytingum sem geta orðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert