Boðað til aukafundar í borgarstjórn vegna lántöku

Boðað hefur verið til auka fundar vegna lántöku.
Boðað hefur verið til auka fundar vegna lántöku. mbl.is/Árni Sæberg

Boðað hefur verið til aukafundar í borgarstjórn Reykjavíkur til að ræða um lán sem sótt var um hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, segir að fundarboðunin hafi komið á óvart.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir kjör lánsins betri en önnur sem buðust og að tiltölulega lág upphæð lánsins sé vegna lántökuáætlunar borgarinnar. 

Lýsir stöðunni vel 

„Þetta er auka fundur sem kemur okkur í minnihlutanum á óvart. En þarna á væntanlega að fjalla um lánsumsókn borgarinnar til Þróunarbanka Evrópuráðsins. Eins og þekkt er orðið hefur borginni gengið illa að fjármagna sig með skalabréfaútboðum. Nú þarf því að leita til þróunarbankans og það lýsir stöðunni vel,“ segir Hildur. 

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Dagmál

Upphæð lánsins er 15 milljarðar króna og eru þeir eyrnamerktir til viðhalds í leik- og grunnskólum í borginni. Er það um helmingur þess fés sem áætlað er að veita í verkefnið. 

Innan lántökuáætlunar 

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir að boðað hafi verið til fundarins nú sökum þess að vinnu við lánsumsókn Reykjavíkurborgar hafi verið að ljúka. Nú þurfi að staðfesta lántökuna og verður hún kynnt á fundinum. 

Í samhengi borgarmálanna er þetta frekar lág upphæð. Hvers vegna er hún svo lág?  

„Við erum með lántökuáætlun og höfum verið að fjármagna okkur á skuldabréfamörkuðum og bönkum. En við höfum fundið fyrir því að skuldabréfamarkaðir eru erfiðir vegna hás vaxtastigs,“ segir Einar. 

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lántakan er innan þeirrar lántökuáætlunar sem við höfum þegar samþykkt og ekki til viðbótar við þá áætlun sem þegar hefur verið gerð. Þarna eru betri kjör en hafa boðist annars staðar,“ segir Einar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert