„Ég er nánast uppgefin eftir þessa kosningabaráttu“

„Ég held að það sé kannski ekki raunin,“ segir Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi í forsetakappræðum Morgunblaðsins spurð hvort hún ætli að beita sér með öðrum hætti en fyrri forsetar yrði hún forseti.

„Það sem ég vil gera fyrst og fremst er að fá okkur til að horfa saman fram á veginn og ég tek alveg undir það sem hefur komið fram hérna að forsetinn á að vera að efla ástríðu okkar á samfélaginu,“ segir Halla Hrund.

Hægt er að hlusta á forsetakappræðurnar hér að neðan. 

Forseti eigi að vera meðal fólksins

„Ég hef verið að tala fyrir því að við séum að taka þátt og ég ætla bara að segja ykkur að ég er nánast uppgefin eftir þessa kosningabaráttu ég er búin að taka þátt í svo mörgum hlaupum og skíðagöngu og alls konar þannig þátttöku,“ segir Halla Hrund.

Forsetinn eigi að vera meðal fólksins og hjálpa hlutum að raungerast.

„Hjálpa fyrirtækjunum okkar, menningarstarfinu og hjálpa samfélagsverkefnum að stækka,“ segir Halla. Ríkt hlutverk forsetans sé að stækka hlutverk Íslands á erlendum vettvangi.

„Hvað varðar hinar formlegu valdheimildir þá hef ég talað fyrir því með mjög skýrum hætti að ég ætla ekki að vera forseti í stöðugum pólitískum dansi eða í pólitískum inngripum,“ segir Halla. Við séum með Alþingi fyrir það.

Hefur reynt að vera skýr

„Ef það reynir á í stórum málum, eins og Icesave var frábært dæmi hjá Ólafi Ragnari og önnur dæmi geta varðað fullveldisframsal að einhverju leyti,“ segir Halla og nefnir Evrópusambandið sem dæmi um eitthvað sem þjóðin eigi að kjósa um.

Hún þekki auðlindamál vel eftir störf sín sem orkumálastjóri og í hennar alþjóðlegu störfum.

„Ég hef reynt að vera skýr hvenær þessar valdheimildir og í hvaða tilfellum þær koma til kastanna en almennt finnst mér vera mjög mikilvægt að forseti leiki það hlutverk að fá þjóðina í að vera eitt stórt lið,“ segir Halla og að ekki veiti af því núna.

Hægt er að horfa á kappræðurnar í heild sinni hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert