Fasteignamat á sumarbústuðum hækkar um 15,6% frá fyrra ári. Hækkunin var mest á Norðurlandi eystra eða um 19,5% og næstmest á höfuðborgarsvæðinu, um 18,2%.
Sé frekar rýnt í tölur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sést að hækkun á Norðurlandi vestra var um 16,9% og á bilinu 15,2-15,9% á Austurlandi, Vestfjörðum og Suðurlandi. Hækkunin á Vesturlandi var 13,1% og 4,0% á Reykjanesskaga.
Nýtt fasteignamat var kynnt í gær á fundi HMS. Ástæður hækkunar eru að sögn stofnunarinnar margþættar, en framboðsskortur og lítil uppbygging eru taldar helstu orsakir hækkandi sumarbústaðarverðs.