„Ég gefst aldrei upp. En þetta var ekki að ganga alveg upp. Það voru fáir sem komu en ég er þakklátur þeim sem komu.“
Þetta segir Sigurður Enoksson, bakarameistari og eigandi Hérastubbs bakarís í Grindavík, við mbl.is sem enn og aftur hefur þurft að skella í lás vegna náttúruhamfaranna á Reykjanesskaganum. Um síðustu mánaðamót gerði hann fjórðu tilraunina til að opna en þá hafði verið lokað síðan í febrúar.
Hérastubbur bakarí er fjölskyldufyrirtæki í Grindavík sem Sigurður og faðir hans, Enok Bjarni Guðmundsson, opnuðu árið 1995.
„Ég hætti aldrei og nú bíðum við bara eftir því að bærinn verði opnaður öllum. Fyrr dett ég niður dauður en að loka því sem ég lifi fyrir,“ segir Sigurður.
Sigurður var nýkominn til Grindavíkur til að athuga með varning sem var geymdur í frystinum þegar mbl.is náði tali af honum en rafmagnslaust hefur verið í Grindavík síðustu tvo daga.
„Það hefur allt þiðnað og skemmist en ég náði að skella í nokkrar kökur fyrst ég var kominn á staðinn. Einhverjir fá að smakka þær um helgina á vel völdum stað,“ segir Sigurður og bætir því við að það liggi óþefur yfir Grindavíkurbæ þessa stundina.