Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra segir að mikið sé um kaltjón í túnum bænda um landið sem ríkisstjórnin þurfi mjög líklega að bregðast við.
Í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi segir Bjarkey að um stórmál sé að ræða. Kaltjónið finnist víða um land.
Segir hún kalið í túnunum geta valdið uppskerubresti.
„Túnin verða í rauninni bara ekki nothæf sem þýðir það bara að það getur orðið uppskerubrestur og alls konar,“ segir Bjarkey.
„Þetta er bara stórmál fyrir marga bændur. Það er kal í Eyjafirði og það er kal fyrir austan og það er mikið kal og altjón í Svarfaðardal.“
Bjarkey lagði í morgun fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi varðandi málið.
„Það virðist vera talsvert mikið um kal í túnum hjá bændum sem að ríkisstjórn gæti þurft að bregðast við, og mjög líklega þarf að bregðast við, sem getur kostað talsverða fjármuni.“