Hermann Nökkvi Gunnarsson
Katrín Jakobsdóttir ræddi á sínum tíma við Ólaf Jóhann Ólafsson rithöfund um mögulegt forsetaframboðs hans.
Þetta kom fram í forsetakappræðum Morgunblaðsins og mbl.is sem haldnar voru í gær.
„Við þekkjumst ég og Ólafur Jóhann. Við áttum samtal, hann var auðvitað að velta þessu fyrir sér um tíma,“ sagði Katrín í kappræðunum aðspurð.
Hún setti ekki þrýsting á hann um að fara ekki fram en vildi ekki greina nánar frá samtalinu á milli þeirra þar sem um tveggja manna tal væri að ræða.
Ólafur Jóhann var lengi vel orðaður við framboð til forseta Íslands og voru margir sem skoruðu á hann að láta slag standa.
Hann kvaðst leggja við hlustir en þann 14. mars gaf hann þó frá sér tilkynningu þar sem hann greindi frá því að hann myndi ekki bjóða sig fram til forseta.
„Ég treysti þjóðinni til að finna í þetta vandmeðfarna embætti einstakling sem er því vaxinn – gætir hagsmuna Íslands heima og heiman, stendur vörð um menningu okkar og tungu, þekkir sögu okkar og sérstöðu en sér um leið fram á veginn,“ sagði Ólafur í fyrrnefndri tilkynningu.
Horfðu á kappræðurnar í heild sinni í spilaranum hér að neðan: