Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ætlar að eyða kosningavökunni á morgun með stórfjölskyldu sinni heima hjá móður sinni, sem fæddist undir dönskum kóngi.
Í spjalli að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun sagðist Guðrún vera búin að ákveða hvern hún kýs og bætti við að allir frambjóðendurnir væru frambærilegir, hver á sinn hátt. Allir myndu þeir sóma sér vel á Bessastöðum.
„Þetta verður mjög spennandi kosningakvöld og ég hlakka til að vera með minni stórfjölskyldu. Við ætlum að vera með kosningavöku þar sem móðir okkar, sem er aldursforseti fjölskyldunnar, ætlar að bjóða okkur heim,” sagði Guðrún, spurð út í kosningarnar.
„Hún fæddist undir dönskum kóngi, þannig að þetta verður stór stund eins og alltaf er þegar við kjósum nýjan forseta yfir lýðveldinu Íslandi,” bætti hún við.