Landspítali skaðabótaskyldur vegna læknamistaka

Líkur á að bataferlið hefði orðið tólf vikur í stað …
Líkur á að bataferlið hefði orðið tólf vikur í stað fjögurra ára ef mistökin hefðu ekki verið gerð. mbl.is/Unnur Karen

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vegna tjóns sem sjúklingur varð fyrir vegna mistaka við læknismeðferð á Landspítala í ágúst árið 2013. 

Í dómnum segir að sjúklingurinn hafi glímt við þrálátar ristilbólgur á árunum 1982 til 1983. Meðhöndlun á spítalanum leiddi til þess að hann fékk útvortis stóma árið 1995 sem var síðan lokað, og myndaður svokallaður J-poki, ári síðar.

Árið 2008 var síðarnefndur poki hættur að virka sem skyldi og þann 27. ágúst árið 2013 var því framkvæmd skurðaðgerð á Landspítalanum sem miðaði að því að fjarlægja pokann og koma þess í stað fyrir útvortis stóma. 

Læknismeðferð spítalans ekki forsvaranleg

Sjúklingurinn segir þá læknismeðferð sem honum var veitt á spítalanum ekki hafa verið forsvaranlega. Hvorki í aðgerðinni þann 27. ágúst eða í enduraðgerð sem gerð var á sjúklingnum tveimur dögum síðar.

Í enduraðgerðinni kom í ljós að skaði hafi orðið á mjógirni í fyrri aðgerðinni, um það bil 30 til 40 cm frá stóma. Rof hafi komið þar á og mikið hægðainnihald hafi verið í kviðarholi.

Sjúklingurinn krafðist viðurkenningar á bótaskyldu af þessum sökum en dómurinn sýknaði Landspítalann af þeirri kröfu. 

Þrálátar sýkingar í fjögur ár

Afleiðingar þessara aðgerða voru þær að næstu árin glímdi sjúklingurinn við þrálátar sýkingar og undirgekkst fleiri aðgerðir. Í júní 2016 var til að mynda staðfest að sjúklingurinn væri með fistil frá mjógirni út í kviðvegg sem fjarlægja þurfti með aðgerð. 

Í nóvember 2017 kom aftur í ljós að fistill væri fyrir hendi og var gerð aðgerð í byrjun desember það sama ár til að fjarlægja hann. Í aðgerðinni kom í ljós að fistillinn reyndist vera frá heftilínu þar sem áður hefði verið gert brottnám á mjógirni.

Því þurfti að fjarlægja 60 sentímetra af mjógirni frá stóma og upp í heilbrigðan vef. Í sömu aðgerð var lagt nýtt stóma vinstra megin í kviðveggnum og eftir aðgerðina var vandamálið úr söginni. 

„Samandregið hafi stefnandi orðið fyrir fylgikvilla í aðgerð 27. ágúst 2013 og eftirmál
hafi verið endurteknar sýkingar og aðgerðir ásamt óvinnufærni og lífsgæðaskerðingu
næstu fjögur árin,“ segir í dómnum. 

Umtalsverðar líkur á að tjónið hefði orðið minna 

Áður en sjúklingurinn höfðaði mál aflaði hann sér matsgerðar tveggja dómkvaddra manna. Í dómnum er vísað til þeirrar ályktunar í umfjöllun matsmanna að framkvæma hefði átt enduraðgerðina þann 29. ágúst 2013 með öðrum hætti en gert var. Auk þess hefði átt að fjarlægja görnina frá garnarofinu og niður að garnastómanum og útfæra þannig nýtt garnastóma í stað þess að endurtengja mjógirnið. 

Þá segir jafnframt í matsgerðinni að ef enduraðgerðin hefði verið framkvæmd án þarmatengingar þá væru umtalsverðar líkur á því að tjón sjúklingsins hefði orðið minna og bataferlið töluvert styttra. 

„Sennilegast í kringum átta til 12 vikur í stað fjögurra ára.“

Ríkar kröfur gerðar til sérfræðinga 

Niðurstaða dómsins byggði á þeirri matsgerð sem lögð og taldist með henni nægilega sannað að sú læknismeðferð sem sjúklingnum var veitt í enduraðgerðinni hafi ekki verið hagað sem skyldi. 

„Hér hefur einkum þýðingu að ríkar kröfur mátti gera til starfsmanna Landspítala,
enda um sérfræðinga að ræða,“ segir í dómnum og áréttað að Landspítalinn beri sem vinnuveitandi ábyrgð á þeirri háttsemi.

Var skaðabótaskylda Landspítala þannig byggð á því tjóni sem sjúklingurinn varð fyrir í enduraðgerðinni. Að öðru leiti var Landspítali sýknaður af viðurkenningarkröfu sjúklingsins. 

Gjafsóknarkostnaður stefndans greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans sem var ákveðin 1.850.000 krónur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert