Lögreglan: Mótmælin gengu of langt

Piparúða beitt við Skuggasund í dag
Piparúða beitt við Skuggasund í dag mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir lögregluna gera það sem þurfi að gera til að leysa vandamál sem upp geta komið í mótmælum. Hann segir mótmælin hafa gengið of langt og að einn lögreglumaður hafi þurft að fara á slysadeild.

Greint var frá því fyrr í morgun að piparúða hefði verið beitt á mótmælendur sem saman voru komnir í morgun við Skuggasund þar sem ríkisstjórnarfundur var haldinn.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Reyndu að hindra för ráðherrabíla

Kristján segir að mótmælendurnir hefðu reynt að koma í veg fyrir að ráðherrabílarnir kæmust burt eftir fundinn og hefðu margir þeirra legið á jörðunni til að hindra bílanna. Nefnir hann að fólk hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu og hafi verið margbúið að reyna að ýta mótmælendum burt.

„Við náttúrulega gerum það sem þarf að gera í þessu verkefni og beitum meðal annars piparspreyi í þessu verkefni.“

Samkvæmt upplýsingum mbl.is var sjúkraflutningabíll mættur við Skuggasund eftir ríkisstjórnarfundinn. Segir Kristján lögreglu fá sjúkraflutningabíl til öryggis ef eitthvað gerist.

„Það voru einhverjir sem fengu piparsprey á sig sem að gætu hafa leitað til þeirra, ég er ekki með það á hreinu.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn lögreglumaður þurfti að leita aðstoðar

Kristján segir einn lögreglumann hafa þurft að leita á slysadeild eftir mótmælin. 

„Þegar ráðherrar voru að koma að stendur fólk fyrir og við þurfum að ryðja fólkinu frá til að ráðherrar komist á sinn fund. Þá er lögreglumaður að takast á við mótmælendur og ýta þeim frá og þau ýta á móti og það endar með því að ráðherrabíllinn fer utan í fótinn á lögreglumanninum.“

Kristján segir mótmælin, sem tengjast málefnum í Palestínu og hafa verið haldin reglulega undanfarna mánuði, ekki hafa náð svona hæðum.

Gengið hafi verið of langt í dag og ástandið hafi ekki verið eðlilegt. Lögreglan vilji aðstoða mótmælendur við að ná sínum skoðunum á framfæri en lögreglan hafi þó reglur sem þeim beri að fylgja eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert