Leit heldur áfram í dag að manninum sem féll í Fnjóska í gær.
Maðurinn er um tvítugt og var á ferð með þremur félögum þegar hann hvarf þeim sjónum í ánni.
Viðbragðsaðilar hafa verið að störfum í nótt en sú leit hefur enn ekki borið árangur.
Í gær kom fram að um 130 viðbragðsaðilar hefðu tekið þátt í leitinni en allar björgunarsveitir á Norðurlandi voru kallaðar út.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra í morgun segir að búið sé að óska liðsinnis björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu. Bætast því einhverjir við leitarhópinn í dag.
Aðstæður á vettvangi eru erfiðar og áin mjög lituð. Þá er leitarsvæðið víðfeðmt þegar í ósa árinnar er komið.
Lögreglan kveðst munu veita frekari upplýsingar þegar líður á daginn.