Framkvæmdastjóri sendlafyrirtækisins Wolt, sem er til rannsóknar hjá lögreglu, segir í yfirlýsingu að því hafi ekki verið gert ljóst af yfirvöldum að það sé til rannsóknar.
Samkvæmt heimildum mbl.is á fyrirtækið yfir höfði sér kæru vegna mála sem snúa að brotum á lögum um atvinnuréttindi útlendinga.
„Undir vissum kringumstæðum er heimilt að deila samningum í verktöku. Eins og hjá öðrum þjónustuveitendum geta sendlar í verktöku útvistað verki svo lengi sem við erum upplýst um það,“ segir í tilkynningu frá Elisabeth Stenersen framkvæmdastjóri Wolt á Íslandi og Noregi.
Hins vegar geti ólögleg samnýting reikninga átt sér stað, þar sem samningsbundinn verktaki, áframselur verkið til óvottaðs einstaklings. Í slíkum tilfellum er verktakasamningi sagt upp.
„Okkur hefur verið gert kunnugt um að íslenska lögreglan hafi kallað nokkra verktaka sem hafa sinnt störfum sendla til yfirheyrslu vegna atvinnuréttinda þeirra hér á landi,“ segir í tilkynningu.
Eins segir að verktakar þurfi að framvísa skilríkjum, vegabréfi og ökuskírteini. Þá verði erlendir ríkisborgarar að framvísa atvinnuleyfi.
„Við erum sem stendur búin að þróa, og erum að prófa, andlitsgreiningu í appinu fyrir sendla í Finnlandi. Við vonumst til að koma þessu líka í gagnið á Íslandi í náinni framtíð,“ segir Elisabeth í yfirlýsingu.
„Það skal tekið fram að Wolt sætir ekki rannsókn, eftir því sem við best vitum. Ekkert yfirvald á Íslandi hefur haft samband við okkur vegna verktanna sem sinna þessum störfum. Við munum hins vegar með ánægju vinna með lögreglu eða öðrum yfirvöldum, og höfum sett okkur í samband við viðeigandi yfirvöld og hjálpum öðrum yfirvöldum ef þau hafa samband. Við fögnum að tekið sé á brotum í tengslum við atvinnuréttindi með þessum hætti.“
„Við getum staðfest að deiling reikninga með þessum hætti er mjög sjaldgæf og flestir sendlar
eru harðduglegir og heiðarlegir, og við höfum því enga ástæðu til að vantreysta þeim. Sem
fyrirtæki þá njótum við ekki ávinnings af óleyfilegum deilingum á reikningum innan Wolt enda
býður slíkt hættunni á misnotkun heim auk þess sem það truflar þjónustu okkar. Forgangur
okkar er á þróun tækninnar, vettvangs umhverfið og framkvæmd svo við getum tryggt að Wolt sé örugg þjónusta fyrir alla,“ er haft eftir Elisabeth.