Mótmælendur hafna því alfarið að hafa „gengið of langt“ þegar lögreglumenn beittu piparúða fyrir utan ríkisstjórnarfund í morgun. Lögreglan virðist hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að taka á mótmælendum með meiri hörku, segir mótmælandi.
„Það svíður enn, það svíður allan daginn. Það er að mínu mati alveg galið að þetta sé „lítil valdbeiting“ að nota piparúða,“ segir Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir mótmælandi í samtali við mbl.is.
Lögreglumaður úðaði sum sé piparúða í augun á henni þegar hún og að minnsta kosti 60 manns til viðbótar mótmæltu fyrir utan Ríkisstjórnarfund sem haldinn var í Skuggasundi í morgun.
Hún segir að sex mótmælendur hefðu þurft að leita sér læknisaðstoðar eftir að hafa fengið úða framan í sig, sumir hverra fóru upp á bráðamóttöku.
Lögreglan sakaði mótmælendur um að ganga of langt. Mótmæli af þessum toga hefðu hingað til ekki hafa slíkum svona hæðum.
„Af okkar hálfu voru þetta bara friðsamleg mótmæli, eins og hefur verið gert alla síðustu mánuði og ekkert voðalegt þarna,“ segir Salvör Gullbrá.
„En það er þjóðarmorð í gangi. Það er eðlilegt að það sé hiti í fólki en það eru allri samt sem áður friðsamir.“
Salvör lýsir atburðarrásinni í samtali við mbl.is. Mótmælendur komu sér fyrir sitthvoru megin við Skuggasund, þar sem lögreglan hafði girt götuna af.
„Svo gerist það að ráðherrabíll er að koma [ofan frá] til að sækja einn ráðherra, þá leggjast nokkrir mótmælendur í götuna – sem ég vil taka fram að sé friðsamlegt, í því felst ekkert ofbeldi eða neitt slíkt – þannig að mér finnst furðurlegt að lögreglan segi mótmælin ganga of langt þar,“ segir Salvör.
Lögreglan fjarlægði þá sem á götunni lágu og ráðherrabíllinn keyrði framhjá á meðan átök brutust út á milli mótmælenda.
mbl.is hefur undir höndunum myndskeið af mótmælunum í efri hluta götunnar þar sem sjá má átök brjótast út á milli lögreglu og mótmælenda.
„Lögreglumaður segir „farið þið frá“ og svo líða tvær sekúndur þar til þeir byrja að spreyja á fólk,“ segir Salvör enn fremur. Það hafi því lítill sem enginn tími gefist mótmælendum til að átta sig á fyrirmælum lögreglu áður en þeir fengu piparúða í augun.
„Þetta eru almennir borgarar – þetta var mjög mikið af fólki, mæður með barnavarna voru til dæmis á staðnum. Það er mjög óhugarlegt fyrir almenna borgara að einhver segir „farðu frá“ og ef þú bregst ekki við strax fær maður piparúða í andlitið.“
Bendir hún einnig á að mótmælendur hefðu verið beðnir um að fara af götunni, en lögreglan aftur á móti hafði girt götuna af. „Þannig það var enginn staður fyrir mótmælendur að standa nema á götunni.“
Þegar fólkið sem mótmælti í neðra hluta götu sá það sem skeði á mótmælunum í efri hluta götunnar komu jókst hávaðinn í mótmælendum, að sögn Salvarar.
„Ég sé yfirmann lögreglunnar gefa lögreglumönnum á staðnum handbendingu um að spreyja á mótmælendur,“ segir Salvör.
Þetta hafi sum sé litið þannig út að lögregla hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að ganga harðar á mótmælendum, frekar en að hún hafi verið að bregðast við með nauðsynlegu valdi.
„Við höfum mótmælt um 20 sinnum fyrir utan ríkisstjórnarfund og það var með mjög svipuðu sniði. Eini munurinn á því í dag var að það voru fleiri.“
Salvör segir viðbrögð lögreglu vera í anda þess sem sést hefur á mótmælum erlendis, einkum á Skandinavíu og í Þýskalandi, þar sem lögreglan hefur í auknu mæli beitt valdi gegn mótmælendum.
„Það voru 60 manns [að mótmæla], það þyrfti nú eitthvað mikið að vera ef allir þessi 60 hefðu verið að gera rosalega mikið af sér,“ bendir Salvör á.
„Mótmælendur gegnu ekki langt,“ segir hún enn fremur og sakar Kristján Helga Þráinsson aðstoðaryfirlögregluþjón um að fara með fleipur þegar hann heldur öðru fram.
Lögregla hafi þá enn ekki útskýrt að hverju leyti mótmælin munu hafa gengið of langt. „Því allt sem hann [Kristján lögregla] lýsir er í rauninni fullkomlega eðlilegt,“ bætir mótmælandinn við.
Salvör hafnar því alfarið að það sé mótmælendum að kenna að lögreglumaður hafi særst þegar ráðherrabíl var ekið yfir fót hans en lögreglumaðurinn þurfti að leita á slysadeild Landspítalans.