„Þyngra en tárum taki“ – Vert að skoða þvinganir

Átök á milli mótmælenda og lögreglu í mnorgun.
Átök á milli mótmælenda og lögreglu í mnorgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Málefni sem tengjast átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs voru ekki rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun. Mikil mótmæli fóru fram á meðan fundurinn stóð yfir og beitti lögreglan meðal annars piparúða gegn mótmælendum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra segir vert að skoða hvort beita skuli Ísraelsmenn viðskiptaþvingunum vegna ástandsins á Gasasvæðinu.  

„Þetta var ekki á dagskrá þessa fundar en við ræðum reglulega málefni þessara átaka sem eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs,” segir Guðmundur Ingi um málefni Ísraels og Palestínu, en hann ræddi við blaðamann að loknum fundi.

Styður rétt fólks til að mótmæla

Hann segir ekki hafa verið erfitt að sitja á fundinum á meðan mótmælin stóðu yfir með tilheyrandi hávaða. „Nei, ég bara styð þann rétt fólks að mótmæla og hef alltaf gert. Það er réttur fólks að standa fyrir og standa í mótmælum, þannig að ég hef ekkert við það að athuga nema síður sé,” segir ráðherrann.

Guðmundur Ingi að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Guðmundur Ingi að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það má segja að það sé þyngra en tárum taki að alþjóðasamfélagið skuli ekki geta haft meiri áhrif á gang mála, sérstaklega linnulausar árásir Ísraelsmanna inni á Gasa,” bætir hann við og gagnrýnir að komið sé í veg fyrir að hjálpargögn komist til nauðstaddra og að ekkert hafi verið gert með niðurstöður Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) og Alþjóðadómstólsins (ICJ), æðsta dómstóls Sameinuðu þjóðanna, vegna framgöngu Ísraelsmanna á svæðinu.

„Það er eitthvað sem alþjóðasamfélagið verður að taka miklu, miklu, miklu alvarlegra og þar bendir maður auðvitað á Bandaríkin fyrst og fremst sem eru það ríki sem er langlíklegast til að geta haft raunveruleg áhrif á Ísraelsmenn,” segir Guðmundur Ingi.

Stjórnmálasamband skilaði sameiningu

Mótmælendur fyrir utan fundarstað ráðherra í Skuggasundi í morgun kölluðu eftir viðskiptaþvingunum gegn Ísrael og slitum á stjórnmálasambandi við þjóðina.

Lögreglan beitti piparúða í mótmælunum í morgun.
Lögreglan beitti piparúða í mótmælunum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi kveðst ekki hafa verið fylgjandi því að slíta stjórnmálasambandi við önnur ríki. Slíkt hafi ríkisstjórnin til dæmis ekki gert gagnvart Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu.

„Ein ástæðan fyrir því að okkur tekst að aðstoða fólk sem var komið með rétt til fjölskyldusameiningar yfir landmærin og koma þeim í skjól hér heima á Íslandi var vegna þess að við áttum í stjórnmálasambandi við Ísrael,” svarar hann og segir þetta samband því hafa skilað því að fólkið gat komist hingað.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þarf að beita Ísrael meiri þrýstingi

Varðandi viðskiptaþvinganir segir hann venjulega horft til þeirra af hópi ríkja og að Ísland hafi tekið þátt í slíku oftar en einu sinni í hópi með öðrum.

„Mér finnst það vera eitthvað sem sé vert að skoða vegna þess að ástandið þarna er algjörlega óásættanlegt og það verður að beita Ísraelsmenn meiri alþjóðlegum og pólitískum þrýstingi,” svarar Guðmundur Ingi.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert