Undrast að móðir sín fái að halda systkinum sínum

Krista Hrönn Héðinsdóttir segist hafa alist upp í slæmum aðstæðum.
Krista Hrönn Héðinsdóttir segist hafa alist upp í slæmum aðstæðum. Samsett mynd

Ung kona sem ólst upp hjá móður sem glímir við áfengisvanda og fíkn segir barnavernd hafa brugðist sér frá því hún var fimm ára. Hún finnur sig knúna til að tjá sig nú um aðstæður systkina sinna sem eru á barnsaldri og spyr hvers vegna þau séu enn í umsjá móður þeirra.

Krista Hrönn Héðinsdóttir er 26 ára námsmaður í Bandaríkjunum. Hún lýsir í færslu á Facebook margs konar aðstæðum sem hún segir að hafi einkennt barnæskuna og nú upplifi systkini hennar það sama að sögn hennar.

Krista veitti mbl.is leyfi til þess að birta úr færslunni. Fullorðin systir hennar Alma Ósk er einnig merkt við færsluna.  

8, 10 og 15 ára á neysluheimili 

Þar kemur fram að hún eigi systkini sem eru 8, 10 og 15 ára sem búa hjá móður þeirra á „neysluheimili“ eins og Krista orðar það. Hún segist ekki muna annað en að móðir hennar hafi verið „alkahólisti og fíkill“.

„Kæra barnaverndarnefnd. Af hverju eruð þið ekki að vernda systkini mín? Eiga þau ekki skilið gott líf á heilbrigðu heimili? Hversu oft þarf mamma okkar að vera nær dauða en lífi vegna áfengis -og vímuefnaneyslu til þess að þið gerið eitthvað að alvöru?“ spyr Krista í færslunni.

„Ég veit að þið vitið af því vegna þess að það var reynt að fá ykkur til að stíga inn þegar ég og Alma, yngri systir mín, vorum börn,“ segir Krista. 

Krista telur barnavernd eiga að stíga inn í aðstæður systkina …
Krista telur barnavernd eiga að stíga inn í aðstæður systkina sinna. Ljósmynd/Colourbox

Tekur ótal dæmi 

Í færslu sinni tekur Krista ótal dæmi sem hún segir hafa einkennt uppeldi sitt og systkina sinna. 

„Hvað þarf hún að gera mikið rangt svo hún missi forræði yfir börnunum sínum?

- Drekka sig til dauða nánast daglega?
- Vera í svo mikilli neyslu að hún þekkir ekki sín eigin börn?
- Skilja börnin eftir ein heima?
- Fá lögregluna senda á heimilið?
- Vera svo upp dópuð að hún getur ekki myndað setningar þegar börnin hennar eru að reyna að spyrja hana hvað sé að?
- Deyja áfengisdauða á stofugólfinu og láta börnin halda að hún sé í alvöru dáin þegar ekkert nær að vekja hana?
- Vera lögð inn á spítala vegna neyslu?
- Hverfa og ekki láta heyra í sér í marga daga?
- Hleypa öðrum fíklum inn á heimilið svo þau geti öll dottið í það saman á meðan börn eru inni á heimilinu?
- Missa bílprófið margoft fyrir það að keyra undir áhrifum með börn í bílnum?
- Eiga engan mat á heimilinu því að allur peningur fer í neyslu?
- Setja börnin sín í stöðu þar sem þau gætu verið misnotuð?
- Eiga engan stað til að kalla heimili sitt?
- Skilja börnin eftir í partýum?
- Hugsa ekkert um grunnheilsu eða hreinlæti barnanna sinna?“ segir Krista í færslunni. 

Enn tími til að hjálpa systkinunum

Hún segir þetta einungis brot af því sem hún og Alma systir hennar, sem einnig er merkt í færslunni, hafi þurft að upplifa sem börn. Segir hún þessar aðstæður vera að endurtaka sig í tilviki systkina hennar. 

„Það er of seint fyrir barnaverndarnefnd að hjálpa okkur en það er enn tími til að hjálpa systkinum okkar. Er það ekki það sem þau eiga rétt á?“ segir Krista. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert