Baldur pabbi og Felix pabbi brautryðjendur sama hvernig fer

„Mér líður eins og þetta hafi verið ár eða eitthvað. En það er ótrúlega gaman að geta fagnað með öllu þessu fólki og vinnunni sem þau hafa lagt í þetta.“

Þetta segir Guðmundur Felixson er hann og systir hans Álfrún Perla Baldursdóttir ræða við blaðamann mbl.is í kosningavöku föður þeirra Baldurs Þórhallssonar.

Þau systkinin og fjölskyldan öll hafa verið virkir þátttakendur í kosningabaráttu föður þeirra og hafa varið flestum stundum í kosningamiðstöðinni á Grensásvegi.

Systkinin og makar þeirra standa vaktina á barnum í kosningamiðstöðinni …
Systkinin og makar þeirra standa vaktina á barnum í kosningamiðstöðinni í kvöld. mbl.is/Iðunn

Alltaf að gefa brjóst á fundum

Spurð hvernig sé að vera fjölskylda í framboði segja systkinin það hafa verið mikla stemningu enda hafi fjölskylduvænt umhverfi skapast á kosningaskrifstofunni og fjölskyldan aðeins stækkað í ferlinu.

„Ég á sjö mánaða gamla dóttur og hún er enn á brjósti. Fyrst var það smá skrítið að á fyrstu kosningafundum var ég alltaf að gefa brjóst en núna er það bara orðið eðlilegasti hlutur,“ segir Álfrún Perla og hlær. 

„Við erum mikið búin að vera með krakkana með okkur og hérna á kosningamiðstöðinni er barnahorn sem er alltaf fullt af börnum,“ segir Guðmundur. 

Erfitt að hunsa kannanir sem stjórnmálafræðingur

Spurð hvort þau séu sigurviss fyrir hönd föðurins í ljósi skoðanakannana segir Álfrún Perla erfitt að svara því. Verandi stjórnmálafræðingur, líkt og faðir hennar, sé erfitt að hunsa kannanir en að henni þyki að framboðið hafi náð að koma sínum skilaboðum á framfæri og fengið jákvæð viðbrögð við þeim. 

„Pabbi hefur talað um það að á fundum út um allt land hafi t.d. hinsegin ungmenni mætt og búið til hinsegin rými fyrir fólk. Þannig við höfum komið skilaboðunum á framfæri og gert gott fyrir samfélagið,“ segir Álfrún Perla. 

„Burt séð frá því hvernig fer í kvöld þá eru Baldur pabbi okkar og Felix pabbi okkar frábærar fyrirmyndir fyrir hinsegin fólk og eru brautryðjendur sama hvernig fer.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert