„Ég gæti ekki eina viku í viðbót af þessu“

Jón kaus í Vesturbæjarskóla.
Jón kaus í Vesturbæjarskóla. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður bara rosalega vel. Mér finnst þetta búið að vera ákaflega skemmtilegt og það er mögnuð reynsla að hafa tekið þátt í þessu. Þetta er búið að vera krefjandi en mér finnst ég sjálfur hafa kannski þroskast svolítið mikið á þessu.“

Þetta segir Jón Gnarr forsetaframbjóðandi í samtali við blaðamann mbl.is þegar hann mætti fyrir stundu í Vesturbæjarskóla til að kjósa. 

Kominn með alveg nóg

„Þetta er búið að vera gaman en líka eitt það erfiðasta sem ég hef gert í lífinu vegna þess að ég er búinn að vera eins og alþjóð veit í vinnu líka meðfram þessu, mjög krefjandi vinnu, þannig að ég hef aldrei á ævinni verið svona þreyttur. Það er líka rosalegur léttir í mér að þetta sé búið,“ segir hann og skellihlær. 

„Ég gæti ekki eina viku í viðbót af þessu. Ég gæti ekki svarað einu sinni enn spurningum um málskotsréttinn án þess að öskra.“

Jón Gnarr mætti ásamt fjölskyldu sinni og hundinum Klaka á …
Jón Gnarr mætti ásamt fjölskyldu sinni og hundinum Klaka á kjörstað eftir hádegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki týpan sem hættir í miðjum klíðum

Inntur eftir því hvað taki við á morgun og hvort plönin séu mismunandi eftir því hvort hann verði kosinn forseti eða ekki segir Jón mun þar á. 

„Ég býst við því að ef ég verð forseti að þá muni ég taka á móti árnaðaróskum og gefa fólki möguleika á að sjá mig og svona. Ef ég verð ekki forseti þá mun ég nota daginn til að hvíla mig og reyna virkilega að slaka á. 

Hvort sem er þá mun ég, áður en ég geng til náða annað kvöld, krúnuraka mig vegna þess að ég er að leika í sjónvarpsþáttum og það er gerð krafa um að ég sé krúnurakaður svo hægt sé að setja á mig hárkollu. Ég hef fengið að vera svona á undanþágu í kosningabaráttunni með það að vera krúnurakaður en ég kemst ekki upp með það lengur þannig að krúnurakaður hvort sem er.“

Jón í góðum félagsskap.
Jón í góðum félagsskap. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segist Jón vera í tökum fram í júlí sem hann myndi að sjálfsögðu klára áður en hann tæki við embætti forseta. 

„Þetta eru nýir íslenskir sjónvarpsþættir þar sem við Edda Björgvinsdóttir erum að leika tvö aðalhlutverkin og ég klára það. Ég er bara þannig gerður að ég klára yfirleitt alltaf það sem ég byrja á. Ég er ekki svona týpan sem hættir við, jafnvel þó að sæki á brattann og eitthvað sé erfiðara en ég átti kannski von á,“ segir hann að lokum.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert