Kjörsókn er ívið betri í þetta sinn í Reykjavíkurkjördæmi suður en í síðustu forsetakosningum.
Þetta staðfesti Leifur Valentín Gunnarsson, oddviti yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður, í samtali við blaðamann mbl.is á staðnum. Hér er hægt að fylgjast með kjörsókn í Reykjavík á hverjum klukkutíma.
Hvernig fer þetta af stað hjá ykkur?
„Þetta fer bara mjög vel af stað, undirbúningurinn er búinn að vera góður og kjörsóknin er ívið betri en í síðustu forsetakosningum þannig það er bara frábært auðvitað,“ segir Leifur.
Er eitthvað sem er öðruvísi en áður en gengur þetta sinn vana gang?
„Þetta gengur allt sinn vana gang, þetta er vel smurð vél hérna í Reykjavíkurborg og frábært starfsfólk á bakvið þetta,“ segir Leifur en um 700 manns starfa við kosningarnar í Reykjavík.
Er eitthvað sem flækir þessar kosningar út frá ykkur séð, ef það eru margir frambjóðendur eða slíkt?
„Nei, nei, að sjálfsögðu ekki. Eins og ég segi, það er fagfólk á bakvið þetta og það skiptir ekki máli hvort það séu tveir eða tólf í framboði, það tæklar þetta af fagmennsku,“ segir Leifur.