Minnisvarða um #MeToo hafnað

Mynd úr safni af fundi borgarstjórnar.
Mynd úr safni af fundi borgarstjórnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tillaga borgarfulltrúa Vinstri-grænna um minnisvarða fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis hlaut litlar undirtektir í umsögnum þeirra samtaka sem leitað var til.

Á fundi borgarstjórnar hinn 23. janúar 2024 var samþykkt að vísa svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Vinstri-grænna til meðferðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs:

„Lagt til að borgarstjórn samþykki að haldin verði samkeppni um minnisvarða um #MeToo, fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis, áreitni og nauðgana, sem komið verði fyrir í landi Reykjavíkur.“

Ósýnilegur reynsluheimur

Borgarfulltrúi Vinstri-grænna, Líf Magneudóttir, lagði fram bókun þar sem sagði m.a:

„Með því að ávarpa kynferðislegt ofbeldi í opinberum rýmum erum við að krefjast þess af þeim sem eiga leið hjá og virða fyrir sér verk eða minnisvarða að velta fyrir sér því kerfislega kynferðisofbeldi sem á sér stað í samfélaginu okkar. Þannig getur hafist gagnrýnið samtal um þá normalíseringu sem fyrirfinnst á kynferðislegu ofbeldi, nauðgunum og áreitni í samtímanum. Í gegnum söguna hefur þetta sífellt verið þaggað niður og enn finnum við fyrir þögguninni í dag. Allt í kringum okkur, bæði hér heima og erlendis, eru styttur af merkilegum körlum. Hundruð þúsunda minnisvarða víða um heim eru tileinkuð körlum sem hafa lagt eitthvað til mannkynssögunnar. Sjaldan er konu eða konum og veruleika þeirra lyft upp í almannarýminu. Reynsluheimur kvenna hefur lengi verið ósýnilegur og enn eru öfl allt í kringum okkur sem vilja halda því þannig.“

Leitað var eftir umsögnum hjá Stígamótum, Hagsmunasamtökum brotaþola, W.O.M.E.N., samtökum kvenna af erlendum uppruna, og Kvenréttindafélags Íslands. Umsagnirnar voru kynntar á fundi mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs 23. maí sl.

Er skemmst frá því að segja að aðeins Kvenréttindafélagið studdi tillöguna. Öll önnur samtök lögðust gegn henni. Undir umsögn Kvenréttindafélagsins skrifar Auður Önnu Magnúsdóttir.

Í umsögn hagsmunasamtaka brotaþola segir meðal annars:

„Minnisvarðar eru reistir til þess að minnast einhvers sem var en raunin er sú að baráttan gegn kynferðisofbeldi er í gangi og enn er langt í land að við náum á þann stað sem þykir ásættanlegur. Nær daglega erum við minnt á stöðu kynbundins ofbeldis á Íslandi. Þolendur stíga fram með frásagnir af ofbeldinu sem þau urðu fyrir og á samfélagsmiðlum, fréttum og í dómum sjáum við hvernig kerfið bregst þeim ítrekað.“ Undir umsögnina skrifar Guðný S. Bjarnadóttir f.h. samtakanna.

„Peningum Reykjavíkurborgar væri betur varið í forvarnarstarf og fræðslu. Við teljum að barátta gegn ofbeldi og ofbeldismenningu sé enn þá í fullum gangi og það sárlega vanti fjármagn í forvarnaraðgerðir, fræðslu og menntun. En ekki bara um ofbeldi heldur einnig um menningarnám, fjölbreytileika, jafngildi og inngildingu,“ segir m.a. í umsögn W.O.M.E.N.

Samfélagið þurfi að viðurkenna að konur af erlendum uppruna séu viðkvæmur hópur. Undir umsögnina skrifar Nicole Leigh Mosty.

Ofbeldi ekki á undanhaldi

Í sama streng taka Stígamót og segja að kominn sé tími til að einblína á gerendur í ofbeldismálum en ekki þolendur því án gerenda væri ekkert ofbeldi til. Síðustu ár og áratugi hafi kastljósið stöðugt verið á brotaþolum.

„Það er ekki tímabært að lýsa yfir endalokum #MeToo eða reisa minnisvarða um eitthvað sem var þegar staðan er ekki mikið skárri nú en fyrir bylgjurnar. Umræðan hefur vissulega breyst en ofbeldið virðist ekki á undanhaldi og meira að segja eru vísbendingar um bakslag í baráttunni,“ segja Stígamót.

„Ef hugmyndin er einungis táknmynd þá er betra að verja fjármunum í forvarnir.“ Undir umsögnina ritar Drífa Snædal.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað á fundinum í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert