Inga Þóra Pálsdóttir
„Það var sérstök upplifun að kjósa sjálfan sig,“ segir Ásdís Rán Gunnarsdóttir forsetaframbjóðandi í samtali við mbl.is, en hún greiddi atkvæði í Smáranum kl. 13 í dag.
Þegar blaðamaður náði tali af Ásdísi Rán var hún á leiðinni heim til að græja sig fyrir kvöldið, en hún verður með kosningavöku á Dass á Vegamótastíg sem hefst kl. 20. Þá mun hún einnig veita svissneskri fréttastofu sjónvarpsviðtal í dag.
Ásdís Rán býst ekki við því að fá mjög mörg atkvæði, en hún segist vera sinn eigin sigurvegari og þakkar fyrir allan stuðninginn.
„Mig langar að þakka kærlega fyrir þennan gríðarlega stuðning sem ég hef fundið fyrir á síðustu mánuðum. Þetta er ekkert sjálfsagt og ég bjóst ekki við þessu,“ segir Ásdís Rán og bætir við:
„Ég er ekki að búast við því að fá eitthvað gríðarlega mikið af atkvæðum en mér finnst ég vera minn eigin sigurvegari, að hafa komist í gegnum þetta og hafa náð að gera þetta alveg ágætlega.“
Ásdís Rán segist ekki alveg vita hvað hún geri á morgun, en hún muni allavega hvíla sig aðeins og verja tíma með fjölskyldunni.
„Ég býst fastlega við því að ég geri ekki neitt. Ég er búin að vanrækja heimilið mitt. Ég er ekki búin að taka til í tvo mánuði og börnin mín og kettirnir mínir hafa varla séð mig. Ég hugsa að ég einbeiti að mér aðeins að þeim og hvíli mig í einn tvo daga,“ segir Ásdís Rán og bætir við að eftir viku fari hún til Búlgaríu til að leika í kvikmynd.