„Það var ákveðið sjokk“

Felix Bergsson í góðum gír á kosningavökunni.
Felix Bergsson í góðum gír á kosningavökunni. mbl.is/Iðunn

„Þetta er búinn að vera mikill rússíbani og óskaplega skemmtilegt. Það hefur verið gaman að fara um landið og hitta fólkið,” segir Felix Bergsson, eiginmaður Baldurs Þórhallssonar forsetaframbjóðanda, sem ræddi við blaðamann í kosningamiðstöð þeirra að Grensásvegi 16 í kvöld.

Felix segir ótrúlega stemningu hafa skapast í kosningaherferðinni og trúir því ekki hversu mikil orka verður til í kringum framboð sem þetta.

„Og allir sjálfboðaliðarnir sem flykkjast að þessu. Við teljum þá í hundruðum. Þetta er búin að vera mjög falleg lífsreynsla,” segir Felix.

„Meira opinberandi en maður bjóst við“

„Svo er það hitt. Maður hélt að maður væri opinber persóna en þetta var aðeins meira opinberandi en maður bjóst við og það var ákveðið sjokk á ákveðnum tímapunkti en svo vöndumst við því og þetta var óskaplega gaman,” bætir hann við.

Baldur og Felix á kjörstað í dag.
Baldur og Felix á kjörstað í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvernig er fyrir fjölskyldu að vera saman í framboði?

„Það reynir heilmikið á, það er engin spurning. En þau eru búin að vera algjörlega dásamleg. Börnin okkar Guðmundur og Álfrún Perla hafa staðið með okkur í gegnum þetta allt saman og tengdabörnin jafnframt. Barnabörnin, þeim finnst svo gaman að koma á kosningamiðstöðina,” svarar Felix og nefnir sem dæmi að barnabarnið Eydís Ylfa hafi verið með miklar áhyggjur þegar það fór að gjósa.

„Þá var það fyrsta sem hún sagði: „Ónei munum við þá loka kosningamiðstöðinni?” Henni fannst svo gaman að koma hingað.”

„Stórfjölskyldan hefur komið að þessu á ótrúlega skemmtilegan máta og það er búið að vera svo gaman og gott að finna þann stuðning. Þetta er búið að vera afskaplega skemmtilegt ferli,” heldur Felix áfram.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Baldur átt mjög góða spretti í kappræðum

Spurður um framhaldið í kvöld kveðst hann ákaflega þakklátur fyrir stuðninginn sem þeir hafi fengið. Þeir ætla að sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum og munu taka aðeins eitt skref í einu hvað það varðar.

„Skoðanakannanir hafa ekki verið okkur hagstæðar undanfarna daga en Baldur átti hins vegar mjög góða spretti í umræðuþáttum bæði á mbl.is, Stöð 2 og svo á RÚV í gærkvöldi, þannig að við treystum á að það hafi fleytt honum svolítið áfram. Það voru ótrúlega jákvæðar raddir í dag, bæði í símtölunum sem fóru fram hérna á kosningamiðstöðinni og svo bara fólkið sem kom hingað inn, þannig að við höfum ekki ástæðu til annars en að vera stolt og ánægð,” segir Felix og bætir við að kosningarnar séu þær mögnuðustu í langan tíma og spennan hafi verið mikil.

„Við erum búnir að vera í þessu í tíu vikur. Við erum búnir að fara frá því að vera í toppnum í það að síga svolítið. Svo hafa aðrir komið, eins og þetta ótrúlega flug hjá Höllu Tómasdóttir. Þannig að við tökum bara eitt skref í einu og sjáum hvað kemur í lokin.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert