Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um grunnsamlegar mannaferðir á Seltjarnarnesi. Einstaklingur var þar að taka í hurðarhúna.
Í dagbók lögreglu segir að einstaklingurinn var farinn af vettvangi er lögreglu bar að garði.
Hann fannst ekki þrátt fyrir leit.
Í Breiðholti barst lögreglu tilkynning um einstakling sem var til vandræða í verslun.
Einstaklingurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa, en maðurinn var einnig eftirlýstur vegna annarra mála.
Í miðbænum var einstaklingur í mjög annarlegu ástandi sökum ölvunar handtekinn fyrir utan skemmtistað. Hann var vistaður í fangaklefa þar sem ekki var hægt að koma honum í annað húsaskjól.
Einnig barst tilkynning um konu sem var í annarlegu ástandi sökum ölvunar og var til vandræða fyrir utan verslun í hverfi 108. Henni var fylgt í húsaskjól.
Þá barst tilkynning um mann í annarlegu ástandi sökum ölvunar sem var að reyna komast inn í hús í Hafnarfirði.
Þegar lögregla kom á staðinn og ræddi við manninn kom í ljós að hann hafði farið húsavillt.
Lögregla fylgdi manninum í rétt hús.