„Ég er svo heppin að þekkja Höllu Tómasdóttur og hún á eftir að vera stórkostlegur forseti og ég er rosalega sátt með það,“ segir Ásdís Rán Gunnarsdóttir í samtali við mbl.is spurð hvernig henni líði með niðurstöður kosninganna.
Halla Tómasdóttir hlaut 71.660 atkvæði eða um 34,3% greiddra atkvæða og á eftir henni kom Katrín Jakobsdóttir með 52.731 atkvæði eða 25,5% greiddra atkvæða. Ásdís Rán hlaut 394 atkvæði.
Gengurðu sátt frá þessum kosningum?
„Já algjörlega. Ég á bara ekki til orð. Það voru þúsundir manns sem komu og hittu mig í partýinu hjá mér í gær og það var alveg troðið út að dyrum í marga klukkutíma.“
Hún segist ánægð að sjá stuðninginn sem hún hlaut í kosningunum.
„Ég hef greinilega náð að snerta þjóðina,“ segir Ásdís.
Spurð hvað taki við núna segir Ásdís að hún sé að koma niður úr skýjunum.
„Þetta er gífurlegt spennufall en það sem tekur við hjá mér er að ég þarf að græja og gera heimilið mitt sem er búið að sitja á hakanum. Ég hef ekki náð að sinna neinu síðustu vikur,“ segir Ásdís kímin.
„Svo er ég að fara beint upp í flugvél til Búlgaríu þar sem ég er að leika í kvikmynd og þeir eru búnir að bíða eftir mér í tvo mánuði,“ segir Ásdís og bætir við að forsetaframboðið gekk fyrir.
„Ég er með herskara af framleiðslufólki sem er að bíða eftir mér á meðan ég er í forsetaleik eins og þau segja,“ segir Ásdís.
„Ég fer þangað eftir viku.“
Að lokum segir Ásdís að það hafi verið lærdómsríkt og gott verkefni að fara í forsetaframboð.
„Vonandi náði ég að leyfa þjóðinni að kynnast mér betur.“