Ég vil virkja önnur skynfæri

„Ég get vonandi notað mína sköpun í eitthvað jákvætt,“ segir …
„Ég get vonandi notað mína sköpun í eitthvað jákvætt,“ segir listamaðurinn Jón Þór Birgisson sem flestir þekkja sem Jónsa í Sigur Rós. Hann sýnir nú í Listasafni Reykjavíkur stórar innsetningar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Í Hafnarhúsinu er fólk á þönum; listamenn, sýningarstjórar og iðnaðarmenn. Ekki að undra því þegar blaðamann bar að garði í byrjun vikunnar var unnið hörðum höndum að uppsetningu nýrra sýninga sem verða opnaðar um helgina og eru hluti af Listahátíð.

Í þremur sölum Listasafns Reykjavíkur sýnir listamaðurinn Jón Þór Birgisson innsetningar sem reyna á fleiri skilningarvit en sjónina. Jónsa, sem flestir þekkja úr Sigur Rós, er fleira til lista lagt en tónlist. Hann hefur undanfarin ár unnið þvert á listmiðla en hann sækir innblástur til náttúrunnar og flæðis líkamans. Heimar hans, bjartir eða myrkir, eru fullir af hljóði og ilmi, reyk og mistri. 

Eins konar heimsendailmur

Jónsi hefur í nógu að snúast í safninu en gefur sér tíma fyrir blaðamann. Hann byrjar á að leiða hann í gegnum sali safnsins; fyrst um stóra salinn á neðri hæðinni og Jónsi útskýrir verkið.

„Hérna verða fimmtíu hátalarar á veggjum og myrkur inni, en smá ljós. Ég legg áherslu á röddina og hér verður mistur og ilmur í loftinu. Eins konar heimsendailmur, hvað sem það þýðir,“ segir Jónsi og hlær.

Ertu með þessum verkum að taka tónlistina á annað plan?

„Í rauninni; tónlistin vekur mikil hughrif og hreyfir við manni. Þetta eru allt hljóðinnsetningar en maður sér líka eitthvað og lyktar af einhverju. Ég vil virkja önnur skynfæri en vanalega,“ segir hann og segist vilja bjóða upp á marglaga upplifun.

„Mig langar að láta fólk finna fyrir einhverju,“ segir hann og segir ekki marga nota lykt í innsetningum.

Jónsi er heltekinn af því að finna hina fullkomnu lykt …
Jónsi er heltekinn af því að finna hina fullkomnu lykt og er með vinnustofu í LA þar sem hann blandar ilmi í gríð og erg. Ljósmynd/Paul Salveson

„Bæði tónlist og lykt eru ósýnileg en hreyfa samt við manni. Lykt er svo sterkt skynfæri en svolítið órannsakað og það er gaman að leika sér með það. Lykt getur vakið alls kyns minningar,“ segir hann og segir lyktarskyn sitt hafa þróast mikið með árunum í gegnum allt grúskið og tilraunirnar.

„Þetta er eins og með sönginn; maður þjálfast hægt og rólega og verður svo betri og betri. Ég hef sungið í fjörutíu ár og verð alltaf betri, þótt ég líti ekki á mig sem söngvara.“

Jónsi sækir innblástur til náttúrunnar sem hann segir koma sterkt fram í verkum sínum. Við ræðum verkið hans í Listasafni Reykjavíkur, Flóð.

„Flóð gerði ég fyrst fyrir safn í Seattle, en þegar ég vann verkið uppgötvaði ég að Seattle og Reykjavík eru eins konar systraborgir. Við eigum vonda veðrið og sjóinn sameiginlegan og smátt og smátt varð þetta að meiri dómsdagsspá. Verkið er um stóru ölduna sem kemur og tekur okkur burt einn daginn.“

Er þetta flóðið sem á að tortíma mannkyni, eins konar Nóaflóð?

„Já, þetta er mjög uppörvandi,“ segir hann og hlær.

„En í leiðinni mjög friðsælt og fallegt þótt þetta sé dómsdagsspá.“

Að hreyfa við sjálfum sér og öðrum

Ertu mikið að velta fyrir þér dauða og heimsendi?

„Ég er ekkert heltekinn af því en þegar maður eldist sér maður að lífið er rosalega stutt,“ segir Jónsi og segir endalausar hörmungarfréttir blasa við, bæði á fréttasíðum og samfélagsmiðlum.

„Allt sem er að herja á heiminn núna, eins og loftslagsbreytingar, er eitthvað sem maður upplifir í rauntíma en enginn gerir neitt. Maður upplifir bjargarleysi. Það er svolítið allt að fara til fjandans og við horfum öll á það hægt og rólega,“ segir hann og segir þessar pælingar allar tengjast verkinu Flóði.

Á efri hæðinni verða annars konar verk þar sem ljós mun leika stórt hlutverk.

„Þar verður risastór þunglyndislampi, sá stærsti í heimi, og eins verður hljóð sem er í takt við ljósið,“ segir hann og segist þekkja skammdegisþunglyndi af eigin raun, sem var þá að einhverju leyti kveikjan að verkinu.

Að ganga þar inn er eins og að fara í sólarlampa, nema mun ýktara, að hans sögn.

Koma þá allir glaðari út?

„Já, og tanaðri líka!“ segir hann og skellir upp úr.

„Fyrst ferðu og skoðar Flóðið og upplifir heimsendi og svo ferðu upp og hressir þig við,“ segir hann kíminn.

Að öllu gamni slepptu vill Jónsi bara skapa og kannski í leiðinni hafa áhrif.

„Ég get vonandi notað mína sköpun í eitthvað jákvætt. Það er það sem ég hef upp á að bjóða og kann og get. Ég vil fyrst og fremst hreyfa við sjálfum mér og ef það hefur áhrif á aðra er það bara frábært.“

Ítarlegt viðtal er við Jónsa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert