Framtíðin óráðin en fyrsta verk að fá sér kaffi

Halla Tómasdóttir og Katrín Jakobsdóttir bregðast við fyrstu tölum í …
Halla Tómasdóttir og Katrín Jakobsdóttir bregðast við fyrstu tölum í Efstaleiti í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Johannesson

Katrín Jakobsdóttir óskar Höllu Tómasdóttur til hamingju með að ná kjöri sem forseti Íslands í nýrri færslu á Facebook.

Katrín fékk 53.980 atkvæði á móti 73.182 atkvæðum Höllu. 

„Ég þakka ykkur öllum sem studdu mig með ráðum og dáð. Ég er stolt af minni baráttu sem var heiðarleg og drengileg, jákvæð og uppbyggileg og háð með reisn. Ólíklegasta fólk tók höndum saman með gleðina að vopni þannig að baráttan var alltaf skemmtileg og gefandi,“ segir í færslunni.

Frábært ferðalag

„Ég hef eignast nýja vini í þessari baráttu, endurnýjað kynnin við gamla vini og félaga og eignast fjöldann allan af nýjum frændum og frænkum sem verður gaman að kynnast betur! Ég hef aldrei fengið jafn margar hlýjar kveðjur og faðmlög þannig að á þessum sunnudagsmorgni er ég ekki vitund þreytt heldur full orku og spennt fyrir framtíðinni,“ segir í færslunni.

„Þetta var einfaldlega frábært ferðalag með góðu fólki!“

Katrín segir að nú taki við ný ævintýri sem hún viti ekkert hver verða. Fyrst ætli hún að fá sér kaffi og njóta þess að vera hér og nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert