Halla ávarpar þjóðina klukkan fjögur

Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, mun ávarpa þjóðina við heimili sitt klukkan fjögur í dag líkt og forverar hennar á Bessastöðum hafa gert daginn eftir kosningar. 

Sig­ur Höllu í kosningunum var af­ger­andi en hún hlaut flest at­kvæði í öll­um sex kjör­dæm­um lands­ins og var með yfir 30% fylgi í þeim öll­um. Halla verður því sjöundi forseti Íslands en hún hlaut um 34% atkvæða.

Alls voru 266.935 manns á kjör­skrá en 215.635 at­kvæði voru greidd. Kjör­sókn var því 80,8% og hef­ur ekki verið meiri síðan í for­seta­kosn­ing­un­um árið 1996.

Hver er Halla?

Halla er alin upp á Kársnesi í Kópavogi og á ættir að rekja til Skagafjarðar og Vestfjarða. Hún er dóttir Kristjönu Sigurðardóttur þroskaþjálfa og Tómasar Þórhallssonar pípulagningameistara en hann lést árið 2008.

Halla er gift Birni Skúlasyni og eiga þau tvö börn, þau Tómas Bjart og Auði Ínu, sem bæði stunda háskólanám í New York. Þá á Halla tvær systur, þær Hörpu og Helgu, sem báðar eru leikskólakennarar. 

Halla Tómasdóttir faðmar fjölskyldu sína fyrir utan Grósku.
Halla Tómasdóttir faðmar fjölskyldu sína fyrir utan Grósku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halla er frumkvöðull og rekstrarhagfræðingur, með meistaragráðu, en hún hóf starfsferil sinn í Bandaríkjunum hjá fyrirtækjunum Mars og Pepsi Cola. Hún kom að uppbyggingu Háskólans í Reykjavík þar sem hún stofnaði og leiddi meðal annars Opna háskólann.

Farsæll ferill

Halla hefur ávallt haft brennandi áhuga á forystu og frumkvöðlastarfsemi og kennt þúsundum nemenda á öllum aldri. Hún varð fyrst kvenna framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs vorið 2006.

Ári síðar stofnaði hún, ásamt Kristínu Pétursdóttur, fjármálafyrirtækið Auður Capital. Segir á heimasíðu Höllu að fyrirtækið hafi lagt áherslu á ábyrgar fjárfestingar sem og að skila hagnaði á grunni góðra gilda. Halla kom í kjölfarið að stofnun Mauraþúfunnar sem hélt Þjóðfund árið 2009. Hjá Mauraþúfunni vann slembiúrtak þjóðarinnar að sameiginlegri framtíðarsýn og gildum.

Halla mun ávarpa þjóðina klukkan fjögur í dag.
Halla mun ávarpa þjóðina klukkan fjögur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halla hefur síðastliðin sex ár verið forstjóri B Team þar sem hún starfar á heimsvísu að sjálfbærni, jafnrétti og ábyrgð í forystu. B Team vinnur með fyrirtækjastjórnendum og stjórnmálaleiðtogum að bættu siðferði. Einnig eru ríkar áherslur lagðar á réttlát og gagnsæ viðskipti og efnahag.

Þá er hún vinsæll alþjóðlegur fyrirlesari og hefur meðal annars stigið fjórum sinnum á TED-sviðið, ásamt því að halda fyrirlestra fyrir stærstu fyrirtæki heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka