Lokatölur liggja nú fyrir í kosningum til forseta Íslands og verður Halla Tómasdóttir nýr forseti Íslands og sá sjöundi frá stofnun lýðveldisins.
Sigur Höllu var afgerandi en hún hlaut flest atkvæði í öllum sex kjördæmum landsins og var með yfir 30% fylgi í þeim öllum. 266.935 voru á kjörskrá en 215.635 atkvæði voru greidd. Kjörsókn var því 80,8 prósent og hefur ekki verið meiri síðan í forsetakosningunum árið 1996.
Halla Tómasdóttir hlaut 34,3% greiddra atkvæða eða 71.660. Katrín Jakobsdóttir hlaut 25,5% eða 52.731, Halla Hrund Logadóttir hlaut 15,5% eða 32.420, Jón Gnarr 10,2%, 21.244 atkvæði, Baldur Þórhallsson 8,3%, 17.433 atkvæði og Arnar Þór Jónsson 5,1% eða 10.698 atkvæði. Aðrir hlutu undir eitt prósent atkvæðanna.
Halla mun taka við forsetaembættinu af Guðna Th. Jóhannessyni í ágúst næstkomandi. Hún bauð sig fram til forseta árið 2016 og varð í öðru sæti á eftir Guðna. Halla hlaut 27,51% fylgi í þeim kosningum en Guðni 38,49%.
Halla er 55 ára gömul rekstrarhagfræðingur og er gift Birni Skúlasyni. Saman eiga þau tvö börn, Tómas Bjart 22 ára og Auði Ínu 20 ára.