Katrín óskar Höllu til hamingju

Katrín Jakobsdóttir á kosningavöku sinni um miðnætti.
Katrín Jakobsdóttir á kosningavöku sinni um miðnætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér sýnist nú bara allt stefna í að Halla Tómasdóttir verði næsti forseti Íslands og ég bara óska henni hjartanlega til hamingju með það.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir í samtali við mbl.is á kosningavöku sinni, eftir að fyrstu tölur úr forsetakosningunum hafa verið gerðar kunnar.

„Ég er sjálf mjög stolt af minni baráttu og tel að hún hafi bæði verið góð og málefnaleg og heiðarleg, og háð með reisn, þannig að ég er mjög stolt af henni og get sagt það að mér finnst ég miklu stærri manneskja eftir að hafa farið í þessa baráttu, átt þetta samtal við þjóðina, þannig ég sé svo sannarlega ekki eftir þessu ævintýri.“

Katrín ræðir við blaðamann á kosningavökunni.
Katrín ræðir við blaðamann á kosningavökunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sátt við ákvörðunina

Þannig að þú ert sátt við þína ákvörðun?

„Sátt við mína ákvörðun og sátt með sjálfa mig.“

Hvað tekur við hjá þér ef fram fer sem horfir?

„Ég auðvitað bara gaf mig alla í þetta verkefni, þannig að ég hef ekki tekið neinar ákvarðanir. Ég held að það verði spennandi verkefni. Það hefur yfirleitt verið mjög gaman hjá mér þannig að ég held að það verði áfram gaman hjá mér.“

Stefnir í nokkuð afgerandi átt

Muntu þá kannski sofa út á morgun? Fyrsti rólegi dagurinn kannski í einhver ár?

„Fyrsti rólegi dagurinn og ég þarf auðvitað núna að taka saman þessa baráttu, gera hana upp og ganga frá öllum lausum endum. Þannig að það er auðvitað bara næsta verkefni.“

Spurð hvort hún muni vaka áfram eftir tölum kveðst hún ætla að sjá til.

„En eins og ég segi – mér sýnist þetta stefna í nokkuð afgerandi átt, þannig að ég á ekki von á stórum breytingum til morguns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert