„Óvenjulegt illviðri miðað við árstíma“

Gular viðvaranir taka í gildi á landinu öllu annað kvöld.
Gular viðvaranir taka í gildi á landinu öllu annað kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag fer lægð fer til austurs fyrir norðan land. Það verður því vestlæg átt, víða kaldi eða stinningskaldi og skúrir, en þurrt að kalla suðaustanlands.

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að hiti verði á bilinu 7 til 14 stig, mildast fyrir austan, en kólnar í kvöld.

Lægðin dýpkar talsvert í kvöld og nótt, og á morgun tekur hún sér stöðu fyrir norðaustan land.

Þá verður köld norðlæg átt á landinu, 8-15 m/s framan degi og skúrir eða él, en yfirleitt úrkomulítið sunnan- og vestantil.

Síðdegis fer að hvessa á Norður- og Austurlandi og það bætir í úrkomu, víða hvassviðri eða stormur á þeim slóðum seint annað kvöld og slydda eða snjókoma. Gular viðvaranir taka í gildi á landinu öllu annað kvöld. 

Á þriðjudag má búast við allhvassri eða hvassri norðan- og norðvestanátt og áfram kalsa úrkoma norðan- og austanlands, líklega rigning eða slydda við sjávarmál en snjókoma inn til landsins.

„Það er síðan litlar breytingar að sjá í framhaldinu, nýjustu spár gera ráð fyrir linnulitlu norðan illviðri fram eftir vikunni, og útlit fyrir að veðrið skáni ekki að ráði fyrr en á föstudag,“ ritar veðurfræðingur. 

Ferðalög geta verið varasöm 

„Næstu daga er því útlit fyrir óvenjulegt illviðri miðað við árstíma.“

Landsmenn eru beðnir um að huga að lausamunum sem geta fokið.

Bent er á að ferðalög geta verið varasöm, sérílagi á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi.

Snjóþekja getur sest á vegi á Norður- og Austurlandi, einkum fjallvegi. Huga þarf að því að koma búfénaði í skjól.

Útivistarfólki er bent á að fara yfir áætlanir sínar með tilliti til kulda og vosbúðar sem óveðrinu fylgir.

Veðurvefur mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert