Mannauðsstjórinn hjá NetApp Iceland, Sarah Cushing, heldur vel utan um starfsfólk sitt sem er eitt það ánægðasta á landinu. NetApp var nýlega útnefnt Fyrirtæki ársins hjá VR, Fyrirmyndarfyrirtæki ársins og einnig Fjölskylduvænasta fyrirtækið, og það annað árið í röð.
Stefna fyrirtækisins er að treysta fólkinu sínu og eiga í stöðugu og góðu samtali.
Blaðamaður hitti Söruh í vikunni og ræddum við galdurinn á bak við gott fyrirtæki og ánægt starfsfólk. Einnig var áhugavert að heyra hvernig Söruh hefur tekist að aðlaga sig að íslensku lífi en hún er sest hér að, enda á hún hér mann og börn. Sarah hefur stundað hér þríþraut af kappi og komist þar á verðlaunapall.
Sarah er frá Nýja-Sjálandi, með háskólagráður í rekstri og stjórnun.
„NetApp er alþjóðlegt fyrirtæki með yfir ellefu þúsund starfsmenn á heimsvísu og er það eitt „Fortune 500“-fyrirtækja. Á Íslandi starfa um níutíu manns hjá fyrirtækinu,“ segir Sarah og segir þau vinna náið með stóru risunum, Google, Amazon og Microsoft.
„Íslenska teymið vinnur aðallega með Microsoft og Google og hér eru flestir starfsmenn tölvunarfræðingar eða verkfræðingar, en einnig er hér fólk í markaðsmálum og í lögfræðideild. Hér er því fjölbreyttur hópur fólks.“
Fleira heillaði Söruh á Íslandi en landið og vinnan því hún hitti ástina sína hér, Hannes Bridde, nú eiginmann.
„Við eigum þrjú börn; sú elsta er stjúpdóttir mín og hún kallar mig mömmu, en við erum mjög nánar. Hún var fimm ára þegar við kynntumst, og svo eigum við fimm ára og tveggja ára barn,“ segir hún.
„Við náðum vel saman og ákváðum fljótlega að stofna fjölskyldu og eiga líf hér saman. Einn bróðir minn býr á Nýja-Sjálandi, annar í Bandaríkjunum og ég á Íslandi þannig að við erum dreifð um allan heim. Aumingja mamma og pabbi,“ segir hún og hlær.
„Nýja-Sjáland er eins langt í burtu frá Íslandi eins og hægt er! En foreldrar mínir vildu bara að ég væri hamingjusöm. Með tækninni í dag er auðvelt að tala saman,“ segir Sarah og segir þau heimsækja Nýja-Sjáland á þriggja ára fresti, enda mjög dýrt fyrir fimm manna fjölskyldu að fljúga þvert yfir heiminn.
„Ísland og Nýja-Sjáland eru í raun lík; bæði fólkið og landslagið. Við erum lítil þjóð og hugsum eins og þið, að við ætlum að gera stóra hluti. Og reynið bara að stöðva okkur!“ segir hún og brosir.
„Þarna er svipaður hugsunarháttur og hér og við erum meira að segja með frasa sem er eins og ykkar „þetta reddast“. Við segjum „she'll be right“,“ segir Sarah.
Fyrirtækið NetApp ákvað í fyrra, í fyrsta sinn, að taka þátt í könnun VR. Sarah segir þau ekki hafa átt von á að vera valin eitt besta fyrirtækið og það í þremur flokkum. Þau endurtóku svo leikinn í ár.
„Við fengum ekki bara viðurkenninguna fyrirmyndarfyrirtækið, heldur vorum líka valin fyrirtæki ársins, sem og það fjölskylduvænasta. Það gerir okkur sýnilegri og við erum virkilega stolt af því að fá þessa viðurkenningu á því hvernig við störfum og hvernig vinnustaðamenning er hér við lýði,“ segir hún.
„Að vinna í fyrra mætti líta á sem heppni en að vinna annað árið í röð staðfestir að við erum að gera eitthvað rétt,“ segir Sarah en niðurstöður VR eru fengnar með því að heildareinkunn fyrirtækja er reiknuð út frá viðhorfi starfsfólks til ólíkra þátta starfsumhverfis. Spurt er um stjórnun, launakjör, starfsanda, jafnrétti, starfsánægju og fleira.
„Hér er frábær vinnustaðamenning. Hér hugsum við vel um okkar fólk; þau eru mjög mikilvæg og þetta eru ekki bara orðin tóm. Við reynum að skilja þeirra þarfir og hvernig við gerum þeim kleift að ná árangri. Við hugum að því að skapa leiðtoga sem eru sannir og sýna samhygð, en á sama tíma viljum við vera með bestu afköstin.
Við viljum að fólkið okkar njóti velgengni og vaxi í starfi þannig að við höfum væntingar en einnig traust. Við treystum okkar fólki til að vinna sína vinnu á sama tíma og það hefur frelsi og sveigjanleika,“ segir Sarah og segir engar reglur um kaffi- eða matartíma og ef fólk þarf að skreppa að sinna erindum á vinnutíma er því frjálst að gera það. Annað sem starfsfólkið kann að meta er að það fær kauprétt að hlutabréfum í fyrirtækinu.
„Það er traust á báða bóga; við treystum þeim og þau okkur sem stjórna. Mannauðsstjórnun snýst ekki um stefnur eða skriffinnsku. Auðvitað er það hluti af því, en fyrir mér snýst þetta um manneskjuna. Við vinnum náið með okkar deildarstjórum og sjáum til þess að þeir starfi vel með sínu fólki og að lítil vandamál verði ekki að stórum.“
Ítarlegt viðtal er við Söruh í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.