Stuðningur og atkvæði sitthvor hluturinn

Eiríkur Ingi Jóhannsson sló met í kosningunum en enginn hefur …
Eiríkur Ingi Jóhannsson sló met í kosningunum en enginn hefur hlotið færri atkvæði í forsetakosningunum á Íslandi. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Met eru alltaf slegin þannig ég gef ekki mikið fyrir það. Það voru tólf manns í framboði,“ segir Eiríkur Ingi Jóhannsson forsetaframbjóðandi í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum um metið sem hann sló í forsetakosningunum.

Eiríkur sló met yfir fæstu atkvæðin í forsetakosningum en hann hlaut 65 atkvæði sem er sögulega lágt.

„Ég hef fengið rosalegan stuðning og stuðningur og atkvæði eru sitthvorir hlutir,“ segir Eiríkur en að hann gangi sáttur frá þessum forsetakosningum.

Hild­ur Þórðardótt­ir átti áður metið en hún fékk 294 at­kvæði í kosn­ing­un­um árið 2016.

Vill að Halla skerpi á þrígreiningu ríkisvalds

Spurður hvernig honum litist á Höllu Tómasdóttur sem forseta segist hann vona að hún líti til stefnumála Eiríks í kosningunum.

„Ég vil að það sé aðskilnaður milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds og vil að hún fari einhverja byrjunarleið í því.“ Þá óskar Eiríkur henni velfarnaðar í embætti.

Hvað tekur svo við?

„Ætli ég reyni ekki að sofa í kvöld og svo kemur bara framhaldið í ljós. Eitthvað þarf maður að vinna til að hafa ofan í sig,“ svarar hann.

Að lokum við Eiríkur óska öllum sjómönnum til hamingju með sjómannadaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka