Þjóðin hafi kosið taktískt

Janus, sem sést hér til vinstri, kveðst ekki sjá eftir …
Janus, sem sést hér til vinstri, kveðst ekki sjá eftir einni einustu mínútu í framboði Baldurs. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta auðvitað sýnir það að þjóðin kaus taktískt,“ segir Janus Arn Guðmundsson úr kosningateymi Baldurs Þórhallssonar. 

Í samtali við mbl.is kveðst Janus gríðarlega stoltur af framboðinu og þeim skilaboðum sem það hafi sent til samfélagsins, þó svo að tölur kvöldsins séu vissulega vonbrigði. 

„Ég væri að ljúga ef ég segði að þetta væru ekki vonbrigði.“

Rutt brautina fyrir annað hinsegin fólk

Kveðst Janus engu að síður fullviss þess að Baldur hafi brotið blað í sögunni með framboði sínu hér á landi og að hann sjái ekki eftir einni einustu sekúndu af kosningabaráttu undanfarinna mánaða.

„Mannréttindabarátta er aldrei til einskis.“

Hefði Baldur unnið hefði það verið sögulegt á heimsvísu að hans mati enda hefði hann verið fyrsti hinsegin einstaklingurinn til að vera þjóðkjörinn í forsetaembætti á heimsvísu. 

„Ég myndi segja að hann hafi mögulega rutt brautina fyrir annað hinsegin fólk,“ segir Janus.

Telur helming fylgisins hafi farið í taktísk atkvæði

Aðspurður segir hann það ljóst að fjöldi kjósenda, sem hafi haft hug á að kjósa aðra frambjóðendur, hafi ákveðið á síðustu metrunum að kjósa Höllu Tómasdóttur í þeim taktíska tilgangi að koma í veg fyrir kjör Katrínar. 

Halla sé þó meira en verðugur forseti að hans mati enda sé það þjóðin sem velji sér sinn forseta. 

„Ég myndi halda að að minnsta kosti helmingur af okkar fylgi hafi farið í að kjósa taktískt,“ segir Janus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert