Ungt fólk sem studdi Höllu Tómasdóttur til embættis forseta Íslands vonast til að hún muni ná að draga úr skautun í íslensku samfélagi.
Miðað við talin atkvæði stefnir í að Halla verði næsti forseti lýðveldisins.
Arent Orri J. Claessen, Indiana Breiðfjörð og Ásthildur Bertha Bjarkardóttir eru öll 22 ára háskólanemar og komu að kosningabaráttu Höllu. Þau tóku meðal annars þátt í að opna kosningaskrifstofu fyrir ungt fólk og hjálpuðu til við gerð efnis fyrir samfélagsmiðla, sérstaklega TikTok.
Þau segja sitt helsta markmið með þátttöku í framboði Höllu hafa verið að auka kosningaþátttöku ungs fólks og fá það til að kynna sér alla frambjóðendur. Þá hafi kosningamiðstöð unga fólksins að mörgu leyti verið sjálfstæð, en auðvitað hafi verið unnið í samstarfi við framboð Höllu.
„Vonandi verður þetta fordæmi fyrir aðrar framtíðarbaráttur, að það sé sérstaklega verið að miða að þessum hóp með þessum hætti,“ segir Arent.
Arent, Ásthildur og Indiana segjast hafa verið mjög spennt fyrir kvöldinu. Það hafi ekki verið ljóst hvernig þetta myndi fara.
„Síðustu tvo sólarhringa er maður bara búinn að skiptast á því á fimm mínútna fresti að finna fyrir stressi og spennu,“ segir Indiana.
„Samt einhvern veginn innst inn var maður alltaf með svona tilfinningu um að þetta gæti fallið með okkur, þetta gæti gerst,“ segir Ásthildur.
Spurð hvað það sé sem þau vonist eftir að sjá frá Höllu í embætti forseta segir Arent:
„Eitthvað ferskt og eitthvað nýtt. Það hlýtur að vera flestum ljóst að það sem sé mest ógnin við okkar samfélag er skautun og þessi pólarísering á öllu. Ef að það er eitthvað sem henni tekst að draga úr, þá er það eitt og sér bara nóg. Ég held að þessi kona sé akkúrat til þess fallin að geta gert nákvæmlega það.“
„Hún hefur ótrúlega sameiningarkrafta,“ bætir Indiana við.
Spurð hvort ungt fólk sé komið með nóg af skautun svara þau öll játandi.