„Ég er alveg viss um að það verða mörg tískuslys á minni vakt“

Halla er þekkt fyrir að bera fallega og litríka klúta.
Halla er þekkt fyrir að bera fallega og litríka klúta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er svo fyndin spurning því ég hef svo innilega ekki mikið sjálfsöryggi þegar kemur að því,“ segir Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, spurð að því í samtali við blaðamann mbl.is hvernig henni lítist á að vera orðin að einhvers konar tískufyrirmynd þjóðarinnar. 

Fullt var út að dyrum á kosningaskrifstofu Höllu þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði eftir hádegi í gær. Þar var Halla mætt, ásamt fjölskyldu sinni, en á staðnum var meðal annars boðið upp á svokallaða „Pop-up“ sölu þar sem klútar í öllum litum, stærðum og gerðum voru til kaups.

Salan gekk það vel að klútarnir seldust upp á augabragði.

Pop up-klútasalan vakti mikla lukku í gær.
Pop up-klútasalan vakti mikla lukku í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hölluklúturinn“ vinsæll

„Ég hef alla tíð reynt að kaupa íslenska hönnun og hönnun kvenna hvert sem ég hef farið sem og listir kvenna, ávallt haft mikinn áhuga á því. Þetta með klútinn er náttúrulega bara þannig að ég var svo kvefuð þennan dag að þegar ég fór í kappræðurnar þurfti ég klút um hálsinn, bara eiginlega til að hjálpa mér, en svo bara einhvern veginn gerist eitthvað,“ segir Halla og hlær.

Halla ásamt fjölskyldu sinni.
Halla ásamt fjölskyldu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Svo varð það mjög skemmtilegt tækifæri til að vekja máls á því hversu algengt það er að við tökum dálítið meira eftir umbúðum kvenna. Sjaldnar er einhver umræða um bindi eða jakkaföt karlanna þannig að þetta snerist hjá unga fólkinu í framboðinu upp í eitthvert svona jafnréttismál og strákarnir fóru þá bara allt í einu að mæta með klúta í partí. Svo fór ég að fá myndir og skilaboð frá fólki um allan heim, Íslendinga á ferðalögum með „Hölluklútinn“, og svo seldust þeir upp í nokkrum búðum.“

Góð stemning á kosningaskrifstofunni í gær.
Góð stemning á kosningaskrifstofunni í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls ekki skipulagt

Á kosningavöku Höllu í gær mátti sjá fullt af fólki með klúta um hálsinn svo segja má að hún hafi ómeðvitað hrint af stað nýrri tískubylgju.

„Í gær komu fleiri þúsundir og eiginlega allir með klúta, fólk á öllum aldri og öllum kynjum þannig að það var eitthvað ofsalega fallegt við það en þetta var ekki skipulagt. Svona gerast kannski hlutirnir ef við tölum aðeins við hjörtun í fólki. Það var eitthvað einlægt sem átti sér þarna stað og ég hef líka ákveðið að hafa bara húmor fyrir því.

Ég er alveg viss um að það verða mörg tískuslys á minni vakt því ég er bara oft uppteknari af innihaldinu en umbúðunum,“ segir hún að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert