„Ég vil bara að krakkarnir geti farið út að leika sér án þess að hafa áhyggjur,“ segir Einar Kristján Ívarsson, faðir í Hafnarfirði.
Hafnfirðingar hafa verið uggandi að undanförnu vegna fleiri atvika þar sem maður hefur veist að fylgdarlausum grunnskólabörnum í hverfinu.
Einar hefur ákveðið að taka málið í eigin hendur og vakta hverfið öll virk kvöld svo börn geti verið úti að leik án áhyggna. Hann hvetur aðra foreldra til að gera slíkt hið sama og jafnvel skipta sér á tíma þar sem börn séu ein á ferli.
„Ég vil hvetja þá sem hafa getu til þess að gera það sama og ég.“
Í samtali við mbl.is segir Einar foreldra í Hafnarfirði hrædda um börn sín og óánægða með vinnubrögð lögreglu, sem ekki hafi handtekið manninn.
Myndir af meintum geranda eru nú í dreifingu í Facebook-hópum ætluðum íbúum í Hafnarfirði en móðir stúlku, sem maðurinn elti inn í stigagang á laugardaginn, tók myndirnar eftir að lögregla ræddi við hann og rak hann á brott. Að sögn hennar hafi ekkert frekar verið gert af hálfu lögreglu.
„Ég er ekki að reyna að finna manninn, ég vil bara að fólk viti að börnin geta farið út að leika sér,“ segir Einar.
Hann segir dóttur sína hafa lent í atviki í fyrrasumar þegar maður faldi sig í runna og greip um ökkla hennar þar sem hún átti leið fram hjá. Hann og barnsmóðir hans hafi leitað til lögreglu á sínum tíma en ekkert heyrt aftur frá þeim í sambandi við rannsókn málsins, en dóttir þeirra gat lítil kennsl borið á manninn.
Kveðst Einar telja líklegt að um sé að ræða sama manninn og í þeim atvikum sem hafi átt sér stað í ár.
„Þetta er sama taktíkin. Hann er að gera þetta um hábjartan dag á almannafæri og ég bara spyr sjálfan mig hverjar líkurnar á því séu að annar barnaníðingur gerist jafn djarfur og hann,“ segir Einar og kveðst hafa leitað ráða hjá lögfræðingi um þennan tiltekna mann.
„Ég er búinn að tala við lögfræðing og spyrja hvort ég hafi næg rök til að kæra þennan mann fyrir árásina og hann benti mér á að kæra hann endilega. Ég og barnsmóðir mín ætlum að gera það.“
Hann furðar sig á því að lögregla hafi ekki getað gert meira enda sé ekki erfitt að hafa uppi á manninum. Hann sé heimilislaus, af erlendu bergi brotinn, á vappi um götur hverfisins alla daga og gisti í stigagöngum fjölbýlishúsa ásamt öðrum manni.
„Ég ætla nú ekki að bera upp sakir gegn öðrum manni en það er þá mögulegt að þeir séu tveir eða jafnvel fleiri,“ segir Einar.
Hann vilji sömuleiðis vita hvort lögreglan hafi upplýsingar um stöðu mannsins, hvort hann hafi áður gerst brotlegur annars staðar, sé eftirlýstur í öðrum löndum, hvort hann sé með ríkisborgararétt hér á landi og hvort aðgerðir sem beinist gegn þessum tiltekna manni séu fyrirhugaðar.
Hann hyggst standa vaktina eftir vinnu yfir sumartímann á þeim svæðum sem maðurinn hafi látið til skara skríða á. Hann ítrekar hvatningu sína til annarra foreldra um að gera slíkt hið sama.
„Hafnarfjörður er stór bær og mér finnst mjög mikilvægt að við gerum þetta þangað til hann er í haldi lögreglu eða honum hefur verið vísað úr landi, ef það er hægt.“