Amfetamín er ekki bara amfetamín

Metamfetamínkristall. Adam segir aðra merkilega niðurstöðu rannsóknarinnar hafa tengst metamfetamíni.
Metamfetamínkristall. Adam segir aðra merkilega niðurstöðu rannsóknarinnar hafa tengst metamfetamíni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi grein byggir á samantekt minni á blóðsýnum sem komu til okkar í mælingar árin 2021 og '22 þar sem ég var að skoða allt sem var jákvætt fyrir amfetamín, metamfetamín og fíkniefnasýni sem við höfum fengið í mælingu.“

Þetta segir Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur við Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is en hann er einn þriggja höfunda greinarinnar Enantiomeric profile of amphetamines in seized drug samples and in blood of impaired drivers in Iceland: The rise of (R)-methamphetamine? sem nýlega birtist í tímaritinu Journal of Analytical Toxicology.

Báru Adam og samstarfsmenn hans þar saman magn löglega og ólöglega framleidds amfetamíns í lífsýnum úr ökumönnum sem sætt höfðu afskiptum lögreglu og verið gert að láta af hendi sýni til að ganga úr skugga um hæfni þeirra til að stjórna vélknúnu ökutæki með tilliti til þess sem íslensk lög bjóða.

Adam Erik Bauer réttarefnafræðingur rannsakaði 564 blóðsýni úr íslenskum ökumönnum …
Adam Erik Bauer réttarefnafræðingur rannsakaði 564 blóðsýni úr íslenskum ökumönnum sem reyndust hafa neytt amfetamíns, stundum ólöglegs, stundum ekki. Niðurstöður hans hafa kveikt áleitnar spurningar og nauðsyn frekari rannsókna. Ljósmynd/Aðsend

Spegilmynd hins ólöglega

„Ástæðan fyrir því að ég fór að skoða þetta er að það er búið að vera mikil umræða um ADHD-lyfin og við höfum séð aukningu – síðan við hófum þessa mælingu – á þörfinni fyrir aðgreiningu á svokölluðum handhverfum amfetamíns,“ segir Adam af rannsókn þeirra og útskýrir í framhaldinu hugtakið handhverfa.

„Þegar amfetamín er búið til eftir þessari almennu ólöglegu leið myndast spegilmynd af sameindinni, í raun myndast tvær útgáfur sem eru spegilmynd hvor af annarri. Það sem er í [löglegu] lyfjunum er bara önnur myndin, það sem er í ólöglegu efnunum eru þær báðar. Þegar við náum að aðgreina þær í lífsýnum fáum við hugmynd um hvað fólk er að taka inn,“ útskýrir réttarefnafræðingurinn kjarna rannsóknarinnar.

Segir Adam frá því að við skoðun hans hafi hann orðið þess áskynja að af 564 blóðsýnum hafi 48 aðeins reynst innihalda aðra spegilmyndina og þar með verið um löglega framleidd ofvirknilyf að ræða, það er amfetamín sem kallað er S-amfetamín eða dexamfetamín.

„Það sem eftir stendur, 516 blóðsýni, voru með blöndu af þessum spegilmyndum í einhverju formi sem bendir til ólöglegrar neyslu á amfetamíni,“ heldur Adam áfram. Það sem hann kveður merkilegt við þennan hluta rannsóknarinnar er að miðgildi blóðstyrks í amfetamíni hafi reynst fjórfalt lægra fyrir þá sem mældust með lyfjaformið miðað við ólöglega formið af lyfinu.

Býst við hreinu metamfetamíni

„Það táknar að þeir sem eru að taka ólöglega amfetamínið taka stærri skammta sem kemur svo sem ekkert á óvart, en nú erum við með töluleg gildi sem sýna það. Þeir sem notuðu löglega formið voru með 51 nanógramm á millilítra [af blóði] en hinir voru með 200. Það er miðgildið, en bilið var miklu breiðara, sérstaklega fyrir þá sem notuðu ólöglega framleitt amfetamín,“ segir Adam.

Hann segir aðra merkilega niðurstöðu rannsóknarinnar hafa tengst metamfetamíni. „Venjulega býst maður við að sjá metamfetamín sérstaklega hreint, til dæmis kristallað metamfetamín, maður býst við að það sé handhverfuhreint og þar sé bara önnur spegilmyndin,“ segir Adam.

Þar sé venjulega á ferð S-metamfetamín sem talið sé allt að tífalt virkara en hin spegilmyndin, R-metamfetamínið svokallaða. Hvað þetta atriði snertir sé þó hörgull á nýjum rannsóknum. „Við getum því ekki byggt á neinum nýjum tölum, en S-metamfetamínið hefur meiri áhrif á miðtaugakerfið og því er mun algengara – á heimsvísu – að sjá kristallað metamfetamín sem S-metamfetamín,“ útskýrir hann.

Sama útlit, sami hreinleiki, en...

Hann hafi hins vegar tekið eftir því við rannsóknina að báðum handhverfunum hafi verið fyrir að fara þegar metamfetamín var annars vegar. „Það kom mér á óvart. Þegar ég fór svo að skoða efnissýnin sá ég að af 26 hreinum efnissýnum voru fjórtán S-metamfetamín, eins og ég bjóst við, en ellefu voru hrein R-metamfetamínsýni sem hefur verið talin óvirkari útgáfa,“ segir Adam og bætir því við að eitt sýni af þessum 26 hafi verið blanda af S- og R-metamfetamíni.

Efnin líti nákvæmlega eins út og hreinleiki þeirra hafi verið mikill en vegna þess að um ólíkar handhverfur hafi verið að ræða hafi líffræðileg virkni þeirra verið mismikil. „Það kom á óvart og um svona hátt hlutfall hefur ekkert komið fram í neinum rannsóknum. Þá fór maður að spyrja sig hvort þetta væri einkennandi fyrir Ísland, en svo sagði einn kollegi minn mér það bara núna áðan að sérfræðingar í Belgíu og Hollandi, þar sem mikil framleiðsla á sér stað, væru líka að taka eftir töluverðri aukningu í hreinu R-metamfetamíni. Almennt hefur þetta ekki verið mikið skoðað því bæði formin eru ólögleg.“

Áður hafi framleiðendur efnanna reynt að aðgreina þau og breyta svo R-metamfetamíni í S-metamfetamín vegna mun meiri virkni þess. „En núna er eins og þeir séu að aðgreina efnin, kristalla þau bæði og setja bæði á markað. Þá hefur maður áhyggjur af því, vegna þess að ef virkni efnanna er svona mismunandi fái neytendur sitt á hvað, venjist einu efni með eina virkni en fái svo annað sem er allt öðruvísi. Þá ertu kominn með þennan breytileika,“ segir Adam, breytileiki sé alltaf hættulegur á vettvangi fíkniefna.

Bregst markaðurinn við?

Hann segir venjulegt götuamfetamín oft þynnt með koffeini eða ýmsum tegundum sykurs og því eðlilegt að styrkur þess sé mun minni. „En metamfetamínið gengur oft kaupum og sölum sem kristallað metamfetamín, „crystal meth“ eins og það kallast. „Þeir sem kaupa kristallað fíkniefni halda þá að þeir séu með mjög hreint efni en þessar niðurstöður flækja málin þar sem þú ert kominn með svona mismunandi virkni,“ útskýrir rannsakandinn.

Hann segist velta því fyrir sér hvort nú sé ekki rannsókna þörf á hærri neysluskömmtum metamfetamíns og hvort virkni R-metamfetamíns sé raunverulega minni eins og talið hefur verið. „Maður skyldi ætla að markaðurinn brygðist einhvern veginn við þessu, ef það væri fullt af metamfetamíni með minni virkni í umferð, en það er erfitt að segja af því að við höfum engin gögn frá neytendum um þetta,“ segir Adam um skort á rannsóknum.

Aðspurður kveður hann þessa tilteknu rannsókn einkum sprottna af forvitni en Adam er um það bil að hefja doktorsnám í líf- og læknavísindum sem þó tengist efni rannsóknarinnar ekki beint. Áður hefur hann lokið BS-gráðu í lífefna- og sameindalíffræði frá Háskóla Íslands og MS-gráðu í réttarvísindum frá Kaliforníu.

Fráveitan er fjársjóður

Í doktorsnámi sínu kveðst Adam einkum vera áhugasamur um að elta ný fíkniefni og skoða breytingar á íslenskum fíkniefnamarkaði. „Ég er að reyna að fóta mig í því hvaða skimunarleið er best og mun til dæmis skoða fráveituna vel [efni sem greinast í afrennsli sveitarfélaga] og reyna að sjá breytingar á fíkniefnamarkaði gegnum hana og hvort eitthvað nýtt sé í umferð,“ segir hann.

Enn fremur hefur hann áhuga á að kanna merkingar á fölsuðum efnum, svo sem þegar verið er að merkja töflur einhverri tiltekinni tegund en þær reynast innihalda annað eða önnur efni. „Mig langar að kortleggja fölsuð efni betur,“ heldur hann áfram og kveðst eiga eftir að skoða það betur hvers konar rannsóknaraðferðir henti best þar.

Líklega væri best að reyna að nálgast upplýsingar að einhverju leyti frá neytendum sjálfum, „en það þyrfti allt að vera nafnlaust auðvitað, maður vill helst að þetta skili einhverju til baka. Í sambærilegum kerfum erlendis eru upplýsingarnar gerðar aðgengilegar. Hér búum við að því að geta skoðað fráveitu hjá fjórðungi landsins,“ segir Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur við Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, að lokum um rannsókn sína á greiningu amfetamíns í blóðsýnum 564 ökumanna á íslenskum vegum árin 2021 og '22.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert