Finnast þau vera örugg í Bláa lóninu

Fjölskyldan býr í Colorado-ríki í Bandaríkjunum.
Fjölskyldan býr í Colorado-ríki í Bandaríkjunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldgosið við Sund­hnúkagígaröðina virðist ekki stöðva ferðamenn frá því að heimsækja Bláa lónið. Þegar blaðamenn mbl.is bar að garði um hádegisbil voru þó nokkrir ferðamenn á svæðinu. 

Blaðamenn hittu hjónin Krasi og Airam frá Colorado fyrir utan Bláa lónið í dag. Þau komu til hingað til lands á laugardag ásamt börnum sínum Andres og Sofiu. 

Hjónin segjast hafa verið að vonast eftir því að geta heimsótt lónið. Þeim finnist þau vera örugg innan varnagarðanna sem umkringja lónið.

Bláa lónið opnaði á ný í gær en því var lokað 29. maí vegna eldsumbrotanna.

Héldu að eldgosið væri flugeldar

Spurð hvort þau hafi séð eldgosið á leiðinni í Bláa lónið segja hjónin að fyrst hafi þau haldið að um að flugelda væri að ræða. Svo hafi þau hafi áttað sig á því að þetta væri eldgos.

Aðspurð segjast þau ekki hafa vitað af nýjasta eldgosi Reykjanesskagans. „Eina sem við höfðum lesið og vissum af var að það var hætt að gjósa, en svo hefur það greinilega byrjað aftur,“ segir Krasi.

Hann segir það mjög spennandi að vera svona nálægt gosinu og að íslenska náttúran sé engu öðru lík. Eiginkona hans Airam bætir við:

„Þetta er svo magnað og miklu meira en ég bjóst við. Þetta er svo fallegt.“

Draumaáfangastaður

Spurð hvort þeim finnist þau vera örugg á svæðinu í ljósi aðstæðna segjast þau hafa lesið um öryggisráðstafanir, eins og varnargarðana. Það veiti þeim ákveðna öryggistilfinningu. 

„Við erum eins örugg og þið, ekki satt?“ spyr Krasi.

Hjónin segja að Bláa lónið hafi lengi verið draumaáfangastaður fjölskyldunnar og þau telji sig vera ótrúlega heppin að hafa náð að heimsækja lónið.

„Við erum bara hérna í fjóra daga þannig við vorum að vonast eftir því að það væri opið,“ segir Krasi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert