Gagnasöfnun hafin í tengslum við viðbrögð lögreglu

Öflun myndefnis úr búkmyndavélum lögreglu og eftirlitsmyndavélum á svæðinu er …
Öflun myndefnis úr búkmyndavélum lögreglu og eftirlitsmyndavélum á svæðinu er hafin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra mun fara með minnisblað fyrir ríkisstjórn á morgun í tengslum við beiðni Guðmundar Inga Guðbrandssonar, fé­lags­mála- og vinnu­markaðsráðherra, um að farið verði yfir verkferla lögreglu í kjöl­far viðbragða henn­ar gagn­vart mót­mæl­end­um við Skugga­sund, þar sem rík­is­stjórn­ar­fund­ur var haldinn á föstudag. 

Þetta staðfestir Fjalar Sigurðarson, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins, í samtali við mbl.is. 

Gagnasöfnun hafin 

Að sögn Fjalars hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um atvikið til nefndar um eft­ir­lit með lög­reglu og þar með segir hann gagnasöfnun í tengslum við málið hafna. 

Til að mynda sé þegar hafin öflun myndefnis úr búkmyndavélum þeirra lögreglumanna sem voru á vettvangi og úr öryggismyndavélum á svæðinu. 

Skúli Þór Gunn­steins­son, formaður nefndar um eft­ir­lit með lög­reglu, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að nefndin hefði samdægurs óskað eftir gögnum vegna málsins, en nefndin tók málið upphaflega til skoðunar að eigin frumkvæði. 

Málið komið í réttan og viðeigandi farveg 

Eins og mbl.is greindi frá á föstudag óskaði Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, þá starfandi forsætisráðherra, eftir því að farið yrði yfir verkferla og ákvarðanir lögreglu á vettvangi. 

Nú er málið komið til nefndar um eftirlit með lögreglu og segir Fjalar það þar með komið í réttan og viðeigandi farveg. 

„Þess vegna vill dómsmálaráðuneytið leggja fram þetta minnisblað til að árétta hvar málið er statt og hver eðlilegur ferill þess er,“ segir Fjalar til að útskýra hvers vegna dómsmálaráðherra muni fara með minnisblað vegna málsins fyrir ríkisstjórn á morgun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert