Hæstiréttur fjallar um mörk friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis

Hæstiréttur veitti áfrýjunarleyfi.
Hæstiréttur veitti áfrýjunarleyfi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur hefur samþykkt að fjalla um mál sem lýtur að ómerkingu ummæla sem viðhöfð voru í einkaskilaboðum á Instagram og á Facebook-hópi. 

Er málið talið hafa fordæmisgildi um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífsins.

Málið á rætur að rekja til ummæla sem kona viðhafði um mann. Annars vegar voru þau send í skilaboðum á Instagram til unnustu mannsins og hins vegar með nafnlausri færslu á Facebook-hópi.

Sendi unnustunni að maðurinn væri nauðgari

Ummælin sem konan sendi unnustunni á Instagram 28. ágúst 2021 og krafist var ómerkingar voru eftirfarandi:

„Mig langar samt að senda á þig til að láta þig vita að þessi maður er nauðgari. Hann hefur nauðgað manneskju sem er náin mér þegar sú manneskja var 8 ára.“

„Ég veit að hann hefur líka sótt í það að vinna í kringum börn og hefur allaveganna verið í 3 barnagæslum en verið rekinn/látinn fara af þeim öllum miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið.“

„Ég veit að ef ég væri með manni sem væri með barnagirnd eða nauðgari að þá myndi ég vilja vita af því.“

Sækist eftir að vinna með börnum

Ummælin sem birtust á Facebook-hópnum „Stuðningur fyrir þolendur ofbeldis“ 22. janúar 2022 og krafist var að yrðu fjarlægð voru eftirfarandi:

 „Ég er búin að halda inní mér núna í smá tíma að setja þetta nafn hingað inn en ég eiginlega bara verð að gera það uppá að engin önnur börn lenda í honum.“

„Ástæðan fyrir því að ég hef viljað setja nafnið hans hingað inn er því ég veit að hann hefur verið að sækjast um að vinna með börnum. Ég veit að hann unnið á leikskóla, frístund eftir skóla og [...]. Hvert skipti sem hann er rekinn/látinn fara af einum staðnum þá sækir hann um á næsta sem er með börnum á.“

„Að vita til þess að hann sækist eftir að vinna með börnum svona mörgum árum seinna, og það þá vinna sem felur í sér meðal annars að skeina og skipta á börnum, er eitthvað sem er mjög erfitt að vita af án þess að geta varað aðra við“

„Hann var 12 ára þegar hann nauðgaði 8 ára barni. Það var ekki kært þar sem þetta kom upp 10 árum seinna. Barnavernd vill helst ekki skipta sér af þegar hann vinnur í kringum börn því það er engin kæra.“

Var ekki í vondri trú um sannleiksgildið

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var af Landsrétti, segir að efni einkaskilaboðanna væru til þess fallin að skaða æru mannsins og stæði það ekki í vegi fyrir að þau hefðu verið viðhöfð. Þau byggðu á frásögn bróður hennar sem hann staðfesti fyrir dómi og væri því ekki hægt að telja hana hafa verið í vondri trú um sannleiksgildi ummælanna.

Þótti af þeim sökum ekki nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi að takmarka tjáningu konunnar eftir á með þeim hætti sem maðurinn krafðist. Var hún sýknuð af ómerkingarkröfunni.

Jafnframt var konan sýknuð af kröfu vegna nafnlausu ummælanna í Facebook-hópnum þar sem ekki hafði tekist með nægjanlegum sönnunargögnum að hún hafi birt ummælin. Hún hafði ekki ein vitneskju um atvikin sem B lýsti í einkaskilaboðunum á Instagram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert