Hraunið „bunkast upp“ við gígana

Eldgosið hófst í síðustu viku.
Eldgosið hófst í síðustu viku. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Eldgosið við Sundhnúkagíga hélt áfram í nótt af svipuðum krafti og í gær. Hraunflæðið fór dálítið í austurátt í gærkvöldi en það verður betur kannað síðar í dag. Áfram hefur verið mjög lítil skjálftavirkni á svæðinu.

Veðurstofa Íslands mun funda með viðbragðsaðilum í Grindavík, þar á meðal vettvangs- og svæðisstjórnum klukkan átta.

„Við fáum þá að heyra meira um hvað fólk á vettvangi segir varðandi kvikuflæðið,” segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Tveir til þrír virkir gígar

Hann segir hraunrennslið mest í kringum þá tvo til þrjá gíga sem eru virkir við Sýlingarfell og Hagafell. Einn gígur er í suðri en tveir í norðri.

„Það er að bunkast upp hraunið þar við,” segir hann.

Spurður út í hraunflæði í átt að Suðurstrandarvegi segir hann að hraunið sem hafi streymt í suðurátt hafi safnast upp í tjörn. Ekki hefur sést neitt flæði enn þá í átt að veginum en skyggnið hefur ekki verið gott í nótt. 

„Við þurfum að vera í sambandi við fólk á svæðinu sem og fylgjast vel með vefmyndavélum þegar skyggni leyfir.”

Spurður segir hann jafnframt erfitt að segja núna til um landris á svæðinu.

Eldgosið í morgun í vefmyndavél mbl.is.
Eldgosið í morgun í vefmyndavél mbl.is. mbl.is

Gasmengun berst til suðurs

Í sambandi við mengun frá gosinu er það að segja að þá verður norðanátt í dag og mun gasmengun berast til suðurs. Líkur eru á mengun um tíma í Grindavík.

Talsverð óvissa er með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert