Hreifst af tölvunarfræði í FG

Her­dís Heiða Jing Guðjohnsen eftir útskriftarathöfnina á laugardaginn.
Her­dís Heiða Jing Guðjohnsen eftir útskriftarathöfnina á laugardaginn. Ljósmynd/Aðsend

Her­dís Heiða Jing Guðjohnsen er annar tveggja dúxa Fjölbrautaskólans í Garðabæ í ár en hún útskrifaðist á laugardaginn af tæknisviði náttúrufræðibrautar með 9,4 í einkunn.

Herdís hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í stærðfræði, eðlisfræði, raungreinum, tölvugreinum, íþróttum, ensku og íslensku, sem og fyrir góða skólasókn.

Spurð hvernig hún hafi farið að þessu segist Herdís hafa hlustað í tímum og verið dugleg að vinna verkefni jafnóðum í stað þess að fresta þeim fram á síðustu stundu. „Annars myndi ég segja að ég hafi ekkert verið að læra neitt ótrúlega mikið.“

Herdís Heiða Jing Guðjohnsen og Birna Sól Guðmundsdóttir ásamt Kristni …
Herdís Heiða Jing Guðjohnsen og Birna Sól Guðmundsdóttir ásamt Kristni Þorsteinssyni, skólameistara FG. Þær útskrifuðust með jafnháa einkunn og urðu því báðar dúxar. Ljósmynd/Aðsend

Stefnir á nám í tölvunarfræði

Meðfram skóla hefur Herdís verið í hlutastarfi á veitingastað og æft skauta. Hún segir ekki hafa verið erfitt að samræma þetta náminu: „Ég náði einhvern veginn að skipuleggja mig þannig að ég hafði tíma fyrir allt.“

Í haust stefnir Herdís á nám í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík en í FG fór hún í nokkra áfanga í faginu og var mjög hrifin.

„Mér fannst það svo skemmtilegt að ég ákvað að skella mér bara í það í háskóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert